Innsýn í líf og starf hjúkrunarfræðings

Hrafnhildur Jónsdóttir.
Hrafnhildur Jónsdóttir.

Ég er hjúkrunarfræðingur á gjörgæsludeild Sjúkrahússins á Akureyri, útskrifaðist árið 2008 og mín mánaðarlaun eru 359 þúsund. Ég hef alla tíð haft gaman af því sem ég vinn við, þó vissulega geti þetta verið andlega og líkamlega erfitt starf þá finnst mér alltaf gaman að mæta í vinnuna. Það má þakka frábærum og klárum vinnufélögum. Ég veit aldrei hvað bíður mín þegar ég mæti á vaktina og margt getur breyst á augabragði og því þarf alltaf að vera við öllu viðbúinn.

Sumar vaktir eru rólegar, en þær eru mun færri en hinar. Oft komumst við ekki í mat eða borðum matinn seint og í nokkrum skömmtum. Stundum kemur það fyrir að maður sest ekki niður né kemst ekki einu sinni á klósettið alla vaktina. Ég vinn dag-, kvöld- og næturvaktir, þriðju hverja helgi og auðvitað alla rauða daga þegar aðrir eru í fríi.

Ég byrjaði á því að mennta mig sem sjúkraliði og útskrifaðist 1997. Vann við það nokkur ár en langaði að fá meiri áskoranir í vinnunni. Ég kláraði stúdentinn með vinnu sem voru þá 2 ár í viðbót. Þetta eru samtals 5 ár í framhaldsskóla.

Árið 2003 hóf ég nám í hjúkrunarfræði við Háskólann á Akureyri og þar var blessaði klásusinn.  Ég komst ekki í gegn í fyrstu tilraun, féll í einu fagi og þá varð ég að sitja allt aftur, sem ég gerði ásamt mörgum. Sumir að reyna í annað eða þriðja skiptið. Já, engin skömm af því, þetta er strembið nám. Þar sem ég var einstæð móðir á meðan náminu stóð tók ég full námslán, vann eins og ég gat og mátti (vegna LÍN). Ég þurfti að borga mína húsaleigu, mat, rekstur á bíl og fl. Eftir 4 ára nám voru reyndar 5 ár hjá mér skulda ég rúmar 6 milljónir í námslán. Úff, ég verð að borga af því næstu árin og áratugi. (Og lánin lækka samt ekkert, en það er önnur saga). Mér finnst sorglegt að hugsa til þess að ef ég hefði haldið áfram að vinna sem sjúkraliði, með fullri virðingu fyrir þeirri stétt, bætt við mig námskeiðum og svona, þá væri ég örugglega með sömu laun og í dag. En með miklu minni ábyrgð, ekki öll þessi námslán á bakinu og ég tala nú ekki um árin sem fóru í námið.

En ég ætla aðeins að stikla á stóru hvað ég geri sem hjúkrunarfræðingur í minni vinnu því ekki eru allir sem gera sér grein fyrir hvað við gerum mikið þarna. Ég vinn á gjörgæsludeild þar sem veikustu sjúklingarnir eru. Þetta er ekki stór deild, 5-7 rúma deild,  en það er ekki endilega samhengi á milli þess að vera með stóra deild og fjölda sjúklinga hvað sé mikið að gera. Það getur t.d. verið mjög mikið að vera með einn einstakling sem tveir hjúkrunarfræðingar þurfa að sinna. Oft erum við með mjög veika einstaklinga, t.d. eftir stórar aðgerðir, hjarta- nýrna-og lungnaveika einstaklinga sem þurfa á hinum ýmsum tækjum og lyfjum að halda,  t.d. í öndunarvél eða prisma vél (sem er blóðskilnuarvél fyrir þá sem eru í nýrnabilun). Við fáum einstaklinga sem hafa fengið heilablóðfall, hjartaáfall, lent í alvarlegum slysum, lyfjaeitranir, maga- og ristilblæðingar, blóðsýkingar, nýgreind sykursýki og margt fleira. Aldurshópurinn er breiður, allt frá litlum börnum og uppúr.

Við erum oft að vinna með hættuleg lyf, t.d. insulín dreypi í æð (sem stjórnar blóðsykrinum), Noradrenalín dreypi  í æð (sem stjórnar blóðþrýstingnum) og tala nú ekki um öll sýklalyfin, svæfingarlyfin, verkjalyfin og blóðþynningar. Allt eru þetta lyf sem geta valdið miklum skaða eða jafnvel dauða ef við blöndum ekki rétt, gefum ekki rétta skammta á réttum hraða o.s.frv.  Allt eru þetta hlutir sem við þurfum að vera með 150% á hreinu og þurfum stöðugt að fara yfir hlutina og fylgjast náið með lífsmörkum, STÖÐUGT. Allir sjúklingar á okkar deild eru tengdir við síritara þar sem við getum fylgst með púls, blóðþrýsting (sumir eru með slagæðarlínu sem mælir stöðugan blóðþrýsting) súrefnismettun og fleira.

Flestum sjúklingum fylgja aðstandendur, þeir eru stundum yfir okkur öllum tímum sólahrings, við þurfum að upplýsa þá um stöðuna, stundum oft á dag, tala við aðra í síma, sitja fundi með þeim og veita þeim stuðning.  Daglega þarf t.d. að fara yfir blóðprufur, er eitthvað sem þarf að skoða sérstaklega, t.d. steinefni, sýkingargildi eða blóðhagurinn. Fara yfir lyfin og athuga hvort þau séu rétt. Er kannski of mikið af þessu lyfi eða lítið? Við vinnum náið með læknum og förum yfir málin með þeim.

Svo er stór partur eftir; sjálf umönnun sjúklingsins. Eins og gefur að skilja eru sjúklingar á gjörgæsludeild mikið veikir og þurfa mikla aðstoð. Sjúklinginn þarf að þvo frá toppi til táar, snúa í rúminu, hjálpa til við hreyfingu og gera æfingar. Við þurfum oft að þrífa upp ælu, hægðir, losa þvag og hina ýmsu poka frá sjúklingum á klukkustundarfresti, reikna út vökva sem fer inn og hvað kemur mikið út.  Þetta gerum við allt af mikilli umhyggju og virðingu. Við erum einnig málsvari sjúklingsins þegar hann þarf á því að halda.  

Krafa okkar hjúkrunarfræðinga er skýr. Við viljum að menntun okkar og ábyrgð verði metin til launa auk þess að stígið verði stórt skref í þá átt að útrýma þeim launamun sem er til staðar milli hefðbundinna kvennastétta og hefðbundinna karlastétta hjá ríkinu.

Með ósk um það að þessi pistill minn gefi ykkur innsýn í okkar mikilvæga starf.

-Hrafnhildur Jónsdóttir, hjúkrunarfræðingur

Nýjast