28. febrúar, 2008 - 14:06
Fréttir
Akureyrarbær hefur samið við Ingibjörgu Ösp Stefánsdóttur um verkefnastjórn og ráðgjöf í tengslum við undirbúning
á rekstri Menningarhússins Hofs. Gert er ráð fyrir að húsið verði opnað á vormánuðum 2009 og er framundan vinna við
undirbúning og mótun rekstursins og þeirrar starfsemi sem verður í húsinu. Samningurinn felur m.a. í sér endurgerð á eldri
viðskiptaáætlunum fyrir húsið, áætlun um markaðssetningu, greiningu helstu verkferla eftir að starfsemi hefst og endanlega mótun
listrænnar stefnu. Það eru Akureyrarstofa og Fasteignir Akureyrar sem gera samninginn fyrir hönd bæjarins.
Ingibjörg er 32 ára og lauk B.sc. gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum á Akureyri árið 2001 en stundar nú,
samhliða vinnu, meistaranám í viðskiptafræði við sama skóla. Hún starfaði sem framkvæmdastjóri Leikfélags Akureyrar
frá árinu 2004 - 2005 en hefur síðan þá starfað sem markaðs- og kynningarfulltrúi KEA. Ingibjörg er gift Karel Rafnssyni
verslunarstjóra á Akureyri og eiga þau þrjú börn.