Íbúum fjölgar í Búsetahúsum í Naustahverfi

Þeir sem eru að bíða eftir húsnæði í Kjarnagötu 14 í Naustahverfi á Akureyri og hafa óskað eftir að fara inn fyrir jól munu allir ná því, komi ekki neitt óvænt upp á, að sögn Benedikts Sigurðarsonar, framkvæmdastjóra Búseta á Norðurlandi. Hann segir að sá hluti hússins sem nú er unnið að frágangi á sé á áætlun og kaupendur búseturéttar hafi verið upplýstir um það. Þá eru allir fluttir inn í Kjarnagötu 12, sem ætlast var til að gætu flutt inn í íbúðir sínar á tímabilinu júlí til ágúst.

 

Búseti auglýsti nýlega eftir bílskúr eða upphituðu iðnaðarplássi, en það rými er ætlað til geymslu búslóða vegna byggingar við Stallatún 2 og 4. Benedikt segir að Búseti hafi farið seinna af stað með framkvæmdir við Kjarnagötu og Brekatún heldur en upphaflega var rætt um á árunum 2005 og 2006 og í ofanálag hafi verkið tafist vegna veðurfars síðastliðinn vetur. „Það er þensla á byggingamarkaði á Akureyri og í stórframkvæmdum tekur langan tíma að vinna upp tafir þannig að seinkun af nefndum sökum kom ekki aftan að neinum," segir Benedikt. „Það er auðvitað alltaf afar bagalegt þegar áætlanir raskast eða standast ekki og félagið biður félagsmenn sína enn og aftur afsökunar á því og þeim misvísunum sem kunna að hafa komið fram í upplýsingum frá starfsmönnum og forráðamönnum félagsins." Búseti hefur opnað nýja heimasíðu og þar er til að mynda kynning á næstu áföngum í byggingaframkvæmdum á vegum félagsins, í Kjarnagötu 16 og við Brekatún 1 til 19.

 

Nýjast