Íbúar funda um hátíðarhöld um verslunarmannahelgina

Stjórn Akureyrarstofu samþykkti á fundi sínum í gær að boða til opins hugmyndafundar íbúa um hátíðarhöld um verslunarmannahelgina og skal hann haldinn um miðjan janúar nk. Áður hafði Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarstjóri boðað á ráðstefnu um bæjar- og héraðshátíðir á Akranesi nýlega, að Akureyringum yrði boðið á borgarafund í nóvember þar sem ræða ætti opinskátt framkvæmd bæjarhátíðar um næstu verslunarmannahelgi. Bæjarbúar verða því að bíða fram yfir áramót með að tjá skoðanir sínar um þetta mál. Ennfremur kom fram í máli bæjarstjóra á ráðstefnunni á Akranesi, að sú ákvörðun að banna ungu fólki að tjalda um verslunarmannahelgina hafi vakið litla hrifningu kaupmanna og annarra sem höfðu hagsmuna að gæta. Ákvörðunin hafi verið erfið en engu að síður haft mikil áhrif. „Útihátíðir hjá okkur verða með öðru sniði framvegis. Við munum stórauka forvarnir, við þurfum samhent átak til að breyta hátíðunum til hins betra en fyrst og fremst þurfa bæjarbúar að svara því hvert fólk vilji stefna. Menn verða að átta sig á því að að frelsi sem ekki fylgir ábyrgð umhverfist í lausung," sagði bæjarstjóri ennfremur.

Nýjast