Í mínum huga er Akureyri heima
Akureyringurinn, Gunnar Einar Steingrímsson, hefur á undanförnum árum getið sér gott orð sem prestur í smábænum Beitstad í Norður-Þrændalögum. Það sem hefur vakið eftirtekt er að prestur skuli spúa eldi, framkvæma töfrabrögð, syngja Eurovision lög og bregða sér í trúðagervi, en allt þetta og meira til hefur verið hluti af messuhaldinu.
Gunnar, sem er 39 ára, hugsar hlýlega til heimahagana og segir Akureyri vera dásamlegan stað fyrir börn að alast upp á. Ég á afskaplega góðar og hlýjar minningar frá uppvaxtarárum mínum á Akureyri og í mínum huga er og verður Akureyri alltaf heima. Eftir stúdentspróf frá Verkmenntaskólanum á Akureyri flutti Gunnar til Reykjavíkur ásamt konu sinni og hóf nám í guðfræði við Háskóla Íslands. Þegar hjónin höfðu búið í borginni í 15 ár og eignast þrjú börn kom drauma atvinnutilboðið.
Breyttir tímar
Þegar Gunnar hugsar um æskuna í dag finnst honum stundum eins og að börn megi ekki gera neitt því allt er svo hættulegt og ógnvekjandi. En þegar hann var ungur var frelsið mikið og þá voru ekki allir einhvern veginn á tauginni yfir öllu því sem gæti gerst. Samvera var meiri áður fyrr enda ekkert sjónvarp á fimmtudögum og ekkert allan júlímánuð. Fjölskyldan neyddist til að gera eitthvað saman! segir Gunnar og brosir.
Preststarfið köllun
Kristinlegt starf var stór hluti af lífi Gunnars á uppvaxtarárunum, en hann var virkur í KFUM og KFUK sem barn og unglingur og síðar meir sá hann um Æskulýðsfélag Akureyrarkirkju í nokkur ár. Þá var hann harðákveðinn í því að verða prestur þegar hann yrði stór. Alveg síðan ég var 8 ára gamall var ég staðráðinn í því að verða prestur. Ætli við verðum ekki að kalla það köllun!
Freistandi tilboðspakki
Hrunið spilaði stórt hlutverk í þeirri ákvörðun Gunnars að flytja til Noregs ásamt fjölskyldu sinni. Annars hafði hann lengi dreymt um að flytja erlendis og prufa að búa í öðru landi, þannig að ævintýraþrá var einnig áhrifavaldur. Gunnar fékk boð um að gegna stöðu sem prestur og samhliða því mátti hann ljúka því litla sem var eftir af prestsnáminu. Fínt hús og góð kjör voru einnig innifalin í pakkanum. Hjónin ræddu þetta fram og til baka en ákáðu á endanum að slá til. Þetta var tilboð sem kæmi ekki á hverjum degi og það var einfaldlega of gott til að hafna því.
Hjartnæmar móttökur
Lífið í Noregi er gott, börnin voru fljót að aðlagast og fjölskyldunni var vel tekið af öllum í Beitstad. Alveg frá fyrsta degi fengum við þá tilfinningu að við værum velkomin og að hér ættum við heima, segir Gunnar.
Ein saga sem Gunnar segir lýsir þessu vel. Þegar fjölskyldan mætti á nýjan stað með alla búslóðina í gámi var ekki fræðilegur möguleiki fyrir flutningabílinn að komast að húsinu þeirra. Gatan var þröng, allt á kafi í snjó og 25 stiga frost! Skyndilega mæta 30 manns á svæðið, lítill flutningabíll og dráttarvél með kerru sem var álíka stór og Glerársundlaug. Fólkið byrjaði þegar að skófla búslóðinni út úr gámnum og inn í litla flutingabílinn og á kerruna. Eftir tvær umferðir var öll búslóðin komin inn í prestsbústaðinn og í framhaldinu var öllum boðið í kaffi og vöfflur til eins nágrannans. Fjölskyldan var mjög svo hrærð yfir góðmennskunni í sinn garð.
Lifandi kirkja
Norðmönnum þykja þær aðferðir sem Gunnar styðst við í messum nokkuð óvenjulegar, en samkvæmt honum eru guðsþjónustur á hans vegum ekki ólíkar því sem gengur og gerist á Íslandi. Í Noregi þykja þær hinvegar vera eitthvað nýtt af nálinni og NRK, norska ríkisútvarpið, gerði meira að segja frétt um starfshætti Gunnars. Ég hef notað töfrabrögð, trúða, brúður og annað í barnastarfi kirkjunnar, bendir Gunnar á. Þá notast hann við Eurovisionlög í messum og í lokin á útimessum spúir hann eldi öllum til mikillar skemmtunar. Það er mikið líf og fjör í kringum prestinn því verður ekki neitað, enda hafa forsvarsmenn bæjarhátíða sett sig í samband við hann og beðið hann að láta ljós sitt skína víðar. Annars setur Gunnar skýr mörk á milli vinnu og einkalífs til þess að fólk geti nú tekið hann alvarlega í starfi sínu. Hefðbundnu helgisiðaformi segir hann að sé ávallt fylgt eftir, en innan þess ríki ákveðið frjálsræði. Gunnar vill hafa líf í kirkjunni og að fólk fari heim að lokinni guðsþjónustu með gleði í hjartanu.
Jól í Noregi
Í grunninn eru jól í Noregi ekki frábrugðin því sem hefð er fyrir á Íslandi. Sungin eru jólalög, farið í jólahlaðborð, hús skreytt að innan sem utan, borðaður jólamatur og opnaðir pakkar. Matarvenjurnar eru þó nokkuð frábrugðnar því sem tíðkast hér heima svo Gunnar fær sent að heiman maltöl, hangikjöt, hamborgarhrygg og fjölskyldan steikir í sameiningu laufabrauð. Á aðfangadag er ferskur grísabógur á boðstólnum, síðan eru pakkarnir opnaðir og að því loknu gæðir fólk sér á heimalöguðum desert meðan lesið er af jólakortunum. Jólin eru annasamur tími fyrir prestinn og fjölskyldan kemur með í messur, en þó ekki allar enda sex talsins. Ef úti er snjór og frost er algengt að norskar fjölskyldur fari saman á gönguskíði, og það er eitthvað sem Gunnar og fjölskylda hans hafa einnig byrjað að tileinka sér.
-MS (Viðtalið birtist í Jólablaði Vikudags)