10. mars, 2008 - 19:07
Fréttir
Guðmundur Steindórsson ráðunautur hjá Búnaðarsambandi Eyjafjarðar segir að svo virðist sem nokkur hreyfing sé að komast á
sölu mjólkurkvóta í héraðinu. „Það var rólegt yfir þessu framan af vetri, fram undir áramót, en þá komu
upp nokkur tilfelli, einhverjir hafa selt frá sér kvóta aðrir eru að velta því fyrir sér," segir Guðmundur. Hann nefnir að m.a. sé um
að ræða eldri bændur sem hafi í hyggju að búa áfram á jörðum sínum en sjái fram á að þrek til að stunda
búskap fari þverrandi. Umræða um mjólkurkvótamál hafi ef til vill ýtt við einhverjum og þá hafi verð á
kvóta verið hátt og menn því ef til vill hugsað með sér að nú væri rétt tíminn til að selja.
„Verðið fór auðvitað hækkandi á meðan ekki var neitt framboð, en það er á niðurleið núna aftur, en samt það
hátt að bændur fá viðunandi verð fyrir," segir Guðmundur. Hann segir skelfilegt til þess að hugsa ef skriða fari af stað, ef bændur
fari að selja frá sér kvóta í miklum mæli og vonar að svo verði ekki. „Það er ómögulegt að spá fyrir um
hvað verður, en vissulega hafa allar þær hækkanir sem dunið hafa yfir að undanförnu sett sitt strik í reikninginn og áætlanir manna
farið úr skorðum í kjölfarið."