Hann segir að til hafi staðið að gera undirgöng á þessum stað um all langt skeið og íbúasamtök og fleiri hafi bent á brýna nauðsyn þess að gera göngin, enda fari fjöldi skólabarna úr Holtahverfi yfir veginn á leið í Glerárskóla. Vegagerðin mun kosta framkvæmdir en Helgi Már bendir á að þess séu dæmi að Akureyrarbær greiði framkvæmdir af þessu tagi í fyrstu og Vegagerðin greiði til baka síðar. Á þessu ári eru á fjárhagsáætlun Vegagerðarinnar áætlaðar 21 milljón króna til framkvæmda við þjóðveg í þéttbýli og eru þær væntanlega tengdar gatnamótum Glerárgötu og Grænugötu.
Á fundi framkvæmdaráðs í liðinni viku var talið rétt að fresta framkvæmdum við þessi gatnamót þar sem þau tengjast framtíðarskipulagi Akureyrarvallar, en Helgi Már segir að framkvæmdaráð meti það svo að undirgöng undir Hlíðarbraut sé forgangsverkefni nú sem beri að fara í hið fyrsta. Leggi ráðið því áherslu á að það fjármagn sem Vegagerðin áætlar í vegaáætlun fyrir árið 2008 fari í gerð undirganganna að viðbættu því fjármagni sem nauðsynlegt er til að ljúka gerð þeirra á árinu 2009. Helgi Már segir að málið hafi verið skoðað og staðsetning ganganna og útlit liggi fyrir. Nú þurfi að þrýsta á um að fjármagn fáist frá Vegagerðinni til verkefnisins. "Við vonum að fjármagn fáist þannig að unnt verði að hefjast handa sem fyrst og vinna að þessu næsta vetur," segir hann.