29. ágúst, 2007 - 20:43
Fréttir
Á stjórnarfundi Skíðasambands Íslands í vikunni var tekin sú ákvörðun að flytja skrifstofu SKÍ til Akureyrar. Hér er um tilraunaverkefni að ræða og er stefnt að því að opna skrifstofuna með formlegum hætti föstudaginn 19. október nk. Fyrr í sumar settu forsvarsmenn Akureyrarbæjar sig í samband SKÍ og buðu sambandinu aðstöðu á Akureyri. Nokkrar ástæður eru nefndar fyrir þessari ákvörðun. Í fyrsta lagi er Akureyri að vissu leyti miðstöð skíðaíþróttarinnar á Íslandi, en þar er staðsett Veraríþróttamiðstöð Íslands. Í öðru lagi hefur Akureyrarbær komið myndarlega að verkefninu. Bærinn hefur boðið SKÍ að vera í sama húsnæði og starfsmaður ÍSÍ við Glerárgötu á Akureyri auk þess að veita aðstöðu til æfinga og námskeiðshalds í fjallinu. Mun þessi ráðstöfun hafa í för með sér umtalsverðan sparnað fyrir SKÍ, auk þess sem hægt verður að sinna betur námskeiðshaldi og þjálfun landsliðsfólks á öllum aldri. Þá telja forsvarsmenn sambandsins að auðveldara geti verið að finna starfsmann á Akureyri sem henti starfseminni. Sambandið hefur auglýst eftir framkvæmdastjóra með aðsetur á Akureyri.