Hlökkum til að endurtaka leikinn fyrir norðan

Mótettukór Hallgrímskirkju undir stjórn Harðar Áskelssonar flytur stórvirkið Vesper op 37 eftir rússneska tónlskáldið Sergei Rachmaninoff á AIM festival, alþjóðlegri tónlistarhátíð sem efnt verður til á Akureyri dagana 12. til 16. júní en kórinn flytur verkið sunnudaginn 15. júní kl. 17 í Akureyrarkirkju. Einsöngvarar eru Vladimir Miller, bassasöngvari frá St. Pétursborg, Nebojsa Colic, tenór frá Serbíu og Auður Guðjohnsen fer með einsöngshlutverk altsins. "Ég hlakka mikið til," segir Hörður Áskelsson stjórnandi kórsins, en hann segir gríðarmikla vinnu liggja að baki æfingum á verkinu, þær hófust um áramót en verkið var flutt í Hallgrímskirkju um hvítasunnuna. "Það verður virkilega gaman að geta boðið Akureyringum og gestum þeirra upp á þetta mikla verk, það er ekki oft flutt, en kórar sem taka sig alvarlega spreyta sig gjarnan á því."

Hörður segir að þessi Náttsöngur Rachmaninoff sé eitt af kröfuhörðustu kórverkum heims, hann er fyrir blandaðan kór og fluttur án undirleiks. Verkið var samið árið 1915 og naut mikilla vinsælda í Moskvu á sínum tíma. Litið var á það sem mikilvæga vörðu á nýrri braut í rússneskri kirkjutónlist, en bylting bolsévika batt snögglega enda á þá þróun tveimur árum síðar. Næturvakan lifði þær hremmningar og er nú flutt víða um heim af metnaðarfullum kórum. Hörður segir mikinn feng að því að fá Vladimir Miller til liðs við kórinn en hann hefur sérhæft sig í að syngja dýpstu tóna sem mannsröddin getur framkallað og er svo sannarlega ekki á allra færi enda hafi hann verið kallaður ofurbassi.

"Ég vona svo svo sannarlega að bæjarbúar sýni lit og troðfylli kirkjuna, bærinn verður iðandi af lífi þessa daga, fullur af júbílöntum sem ég vona að grípi þetta einstaka tækifæri . Það er heilmikil upplifun að hlýða á þetta verk, það er mjög sterkt og áhrifamikið, hreyfir við fólki og fer allan skalann, er veikt og viðkvæmt og upp í það allra öflugasta sem kórsöngur hefur upp á að bjóða. Við hlökkum því mikið til að koma norður og endurtaka leikinn, vinna við æfingar var stíf en uppskeran er líka mikil," segir Hörður.

Nýjast