13. nóvember, 2007 - 21:05
Fréttir
Stefnt er að því að loftræsisamstæður fyrir fjölnota íþróttahúsið Bogann verði komnar upp fyrir áramót, að sögn Sigurðar Ágústssonar hjá Fasteignum Akureyrarbæjar. Hann sagði að samstæðurnar væru ekki komnar til landsins en að von væri á þeim bráðlega. Loftræsisamstæðurnar verða á vesturgaflinum og frá þeim munu liggja rör inn í húsið. Þetta er því ekki ósvipað kerfinu í Egilshöll og fleiri húsum. Loftræsikerfið kemur til með að minnka rakann í loftinu og halda hitanum í 8-10 gráðum, að sögn Sigurðar. Hann sagði að fólk ætti eftir að finna mun, því að þrátt fyrir að hitinn í húsinu sé um 10 gráður þessa dagana þá sé það hinn mikli loftraki sem veldur því að fólki finnst svo kalt. Loftræsisamstæðurnar eru í yfirstærð og er því möglegt að kynda húsið meira ef þurfa þykir í framtíðinni. Lengi hefur staðið til að setja hita í Bogann og átti m.a. að ráðast í framkvæmdir sl. vetur. Af því varð þó ekki, þar sem menn áttu í erfiðleikum með að koma sér saman um hvernig best væri að hita húsið. Í janúar sl. þurfti m.a. að hætta við æfingar í húsinu vegna kulda en nú virðist sem loksins sjái fyrir endann á þessu máli. Framkvæmdir við að múrhúða og einangra húsið hófust í júlí sl. og ef allt gengur eftir ætti langþráður draumur um að fá hita í húsið að rætast fyrir áramót.