20. september, 2007 - 13:35
Fréttir
Heitt vatn flæddi í geymslukjallara í Steinahlíð í morgun eftir að inntak gaf sig í kjölfar þrýstingbylgju sem kom á vatnskerfið. Verið var að vinna í heitavatnskerfinu í Glerárhverfi þegar óhappið varð. Nokkurt tjón varð í geymslum íbúanna af völdum vatns og gufu. Einnig flæddi vatn út á þvottahúsgólf í nokkrum íbúðum í Fögrusíðu í kjölfar þess að öryggislokar opnuðust vegna þrýstibylgjunnar. „Það er verið að vinna við tengingar í Glerárhverfi og einhverra hluta vegna kom þrýstingsbylgja á kerfið sem olli því að öryggislokar opnuðust eins og þeir eiga að gera. En einnig fór inntak rétt við Steinahlíð, sem varð til þess að þar flæddi töluvert. Í stórum dráttum held ég að öryggislokar hafi virkað enda eru þeir til þess að verja húskerfin. Því miður hefur víða verið trassað að leggja lagnir frá þessum öryggislokum eins og á að gera og það getur valdið tjóni," sagði Franz Árnason, forstjóri Norðurorku nú í morgun. Hann sagði að þó nokkuð hefði verið hringt í fyrirtækið vegna þess að öryggislokarnir opnuðust, hann hafði hins vegar ekki enn upplýsingar um hve mikið tjón hafi orðið. ,,Það eru allir uppteknir við að bjarga því sem bjargað verður en þetta gefur tilefni til þess að við beinum því til fólks að fara yfir þennan búnað," sagði Franz.