Heitavatnslögnin komin til Grenivíkur

Í gær var lokið við síðustu pípusuðu í Reykjaveitu sem er 47 km niðurgrafin stofnlögn hitaveitu milli Illugastaða í Fnjóskadal og Grenivíkur. Eins og fram kom í samtali við Guðnýju Sverrisdóttur sveitarstjóra í Vikudegi nýlega, er verið að fá hitaveitu í 110-115 hús í sveitunum og á Grenivík. Hér er fyrst og fremst um aukin lífsgæði að ræða frekar en fjárhagslegan ávinning fyrir íbúa hreppsins með lækkun kyndingarkostnaðar. Það er fyrirtækið GV gröfur á Akureyri sem sér um framkvæmdina. Útlögn röra og pípusuða hófst 4. desember 2006 en vinna gekk rólega vegna veðurs og snjóa fram undir áramót. Vinna við skurðgröft hófst eftir áramót og 15. mars var búið að leggja 13 km. Gert var hlé á framkvæmdum í júní og júlí, en þá var búið að leggja lögnina að Þverá tæplega 30 km leið. Eftir er lítilsháttar yfirborðsfrágangur skurðstæðis sem verður lokið við á næstu dögum.

Nýjast