03. nóvember, 2007 - 17:13
Fréttir
Kristján Kristjánsson, prófessor í heimspeki við Háskólann á Akureyri, ræðir um það hvort "illmennska stafi undantekningalaust af fáfræði eða geðsjúkdómi?" á "heimspekikaffihúsi" á Bláu könnunni á Akureyri á morgun sunnudaginn 4. nóvember milli kl. 11 og 12. Félag áhugafólks um heimspeki á Akureyri í samstarfi við Félagsvísinda- og lagadeild Háskólans á Akureyri ætlar að hefja vetrarstarf sitt á því að halda „heimspekikaffihús" næstkomandi sunnudaga. Starfi félagsins hefur verið sýndur mikill áhugi en í fyrra var haldin afar vel heppnuð fyrirlestraröð um dauðasyndirnar sjö sem var mjög fjölsótt. Stefnt er því að hafa fjölbreytta og áhugaverða dagskrá í vetur til að mæta þeim áhuga sem fólk hefur sýnt viðburðum félagsins. Fyrirkomulagið er þannig að fyrirlesari (philaca) heldur stutta inngangstölu, um 10 mínútur, og að henni lokinni verða umræður. Að þeim loknum tekur fyrirlesari (philaca) efni þeirra saman.
Dagskráin fram að jólum er sem hér segir (á sama stað og sama tíma):
Sunnudaginn 11.nóv. Oddný Eir Ævarsdóttir
Sunnudaginn 18.nóv. Páll Skúlason
Sunnudaginn 25.nóv. Valgerður Dögg Jónsdóttir
Sunnudaginn 2.des. Hjalti Hugason
Aðstandendur hvetja alla áhugamenn og konur til að fjölmenna og eiga notalega og fræðandi stund á Bláu könnunni.