Heilsufarsmælingar í boði SÍBS

Hópur fólks á vegum SÍBS er að leggja af stað í 10 daga ferð um landið til að bjóða fólki á landsbyggðinni mælingar á blóðþrýstingi, blóðfitu og súrefnismettun auk þess sem framkvæmdar verða öndunarmælingar þeim að kostnaðarlausu. Ferðin hefst á Sauðárkróki 12. september og endar á Kirkjubæjarklaustri 21. september með viðkomu í alls 17 bæjarfélögum. Mælingarnar fara yfirleitt fram á heilsugæslustöðvum en á Akureyri verður þó mælt á Glerártorgi.

Mælingar af þessu tagi eru mikilvægar sem forvörn gegn alvarlegum sjúkdómum og er það SÍBS mikilvægt að leita þá uppi sem kunna að vera í áhættu. Það er viðurkennt að mælingar af þessu tagi eru góðar sem fyrsta vísbending. Mæling getur gefið til kynna að nauðsynlegt sé að fara til læknis í frekari rannsóknir og kemur þá til kasta viðkomandi heilsugæslu. Ferðin er liður í forvarnastarfi SÍBS en um leið beinir hún sjónum að samtökunum, eykur þekkingu á starfsemi þeirra og mikilvægi hennar. SÍBS vinnur ötullega að hagsmunagæslu fyrir fólk með brjóstholssjúkdóma þar með talið hjarta- og lungnasjúkdóma, astma, ofnæmi og berkla sem og svefnháðar öndunartruflanir. Þannig leggja þau leggja sitt af mörkum til að stuðla að góðri heilbrigðisþjónustu sem og félagslegri aðstöðu fólksins. SÍBS eiga og reka endurhæfingarmiðstöðina að Reykjalundi, dagvistunarheimilin Múla- og Hlíðabæ í samstarfi við aðra sem og Múlalund, vinnustofu SÍBS fyrir öryrkja, og er Happdrætti SÍBS stærsti bakhjarlinn í fjármögnun starfsemi samtakanna.

Lestin verður á ferð um landið sem hér segir:

Sauðárkróki - 12. september kl. 13 til 16

Heilbrigðisstofnun Sauðárkróks

Siglufirði - 13. september kl. 11 til 14

Heilsugæslustöðin Siglufirði

Ólafsfirði - 13. september kl. 16 til 19

Heilsugæslustöð Ólafsfjarðar

Dalvík - 14. september kl. 10 til 13

Heilsugæslustöðin Dalvík

Hrísey - 14. september kl. 16 til 18

Veitingahúsið Brekka

Akureyri - 15. september kl. 11 til 17

Glerártorgi

Húsavík - 16. september kl. 11 til 16

Heilbrigðisstofnun Þingeyinga

Raufarhöfn - 17. september kl. 11 til 14

Heilsugæslustöðin Raufarhöfn

Þórshöfn - 17. september kl. 16 til 18

Heilbrigðisstofnun Þingeyinga, Þórshöfn

Vopnafirði - 18. september kl. 10 til 13

Heilsugæslustöðin Vopnafirði

Egilsstöðum - 18. september kl. 16 til 19

Heilbrigðisstofnun Austurlands

Neskaupsstað - 19. september kl. 11 til 14

Fjórðungssjúkrahúsið Neskaupsstað

Eskifirði - 19. september kl. 11 til 14

Heilsugæsla Eskifjarðar

Reyðarfirði - 19. september kl. 15 til 18

Heilsugæslan Reyðarfirði

Djúpavogi - 20. september kl. 11 til 14

Heilsugæslan Djúpavogi

Hornafirði - 20. september kl. 16 til 19

Heilbrigðisstofnun Suðurlands

Kirkjubæjarklaustri - 21. september kl. 12 til 14

Heilsugæslustöðin Kirkjubæjarklaustri

Nýjast