Heiðursborgari Húsavíkur

Bergur Elías Ágústsson.
Bergur Elías Ágústsson.

Undirritaður, fulltrúi í sveitarstjórn Norðurþings, sá á vefmiðlum að hin frábæra söngkona Molly Sandén hafi fengið titilinn Heiðursborgari Húsavíkur, í beinni útsendingu í Svíþjóð þar sem sendiherra Íslands hafi veitt viðurkenninguna fyrir hönd sveitarstjóra Norðurþings. Í síðasta Vikublaði kom viðtal við formann byggðarráðs Norðurþings með óljósum skýringum á ferli málsins.

Áður en lengra er haldið, er rétt að það komi fram að Molly ásamt fleirum hafa staðið fyrir frábærri  kynningu á mínu indæla samfélagi sem Húsavík er, eftir því hefur verið tekið um víða veröld. Án efa mun það efla okkar kæra samfélag, skapa tekjur og lífsviðurværi fyrir íbúa Húsavíkur sem staðsettir eru á norðurhjara, með þeim mörgu kostum sem því fylgja. Fyrir það er undirritaður mikið þakklátur.

Til upplýsingar, þá er tilnefning heiðursborgara stórt mál, enda er oftast verið að veita viðurkenningu fyrir áratuga starf í þágu samfélagsins og íbúa þess. Í flestum tilfellum gilda ákveðnar viðmiðunarreglur um slíka heiðursnafnbót og er hún hjá flestum sveitarfélögum með svipuðum hætti. Þær eru, með blæbrigðum;

Við val á heiðursborgara m.a. eftirfarandi haft í huga.

  1. Störf viðkomandi hafi haft veruleg jákvæð áhrif á samfélagið.
  2. Störf og framganga hafi verið til fyrirmyndar og til eftirbreytni.
  3. Jákvæða ímynd bæði innan samfélagsins sem utan.
  4. Sveitarstjórn skal vera einhuga við val á heiðursborgara.
  5. Sveitarstjórn skal fara með val á heiðursborgara sem trúnaðarmál fram að heiðrun viðkomandi, þó skal nánustu ættingjum væntanlegs heiðursborgara gert kunnugt um valið.
  6. Heiðursborgari skal heiðraður við hátíðlega athöfn, s.s. við opinbera hátíð eða stórafmæli viðkomandi.
  7. Heiðursborgari fær skrautritað innrammað skjal undirritað af öllum sveitarstjórnarfulltrúum til staðfestingar. Á skjalinu kemur fram nafn viðkomandi, dagsetning fundar sveitarstjórnar, undirritun sveitarstjórnar og sveitarstjóra.
  8. Heiðursborgari hefur engar skyldur gagnvart sveitarfélaginu sem slíkur.
  9. Sveitarfélagið hefur eftirfarandi skyldur gagnvart heiðursborgara: Fellir niður fasteignaskatt af íbúðarhúsi heiðursborgara sem hann á og býr í.
  10. Býður heiðursborgara til opinberra athafna/veislna á vegum sveitarfélagsins.
  11. Heldur nöfnum heiðursborgara með titlinum heiðursborgari á lofti við tilhlýðileg tækifæri.
  12. Tekur þátt í athöfn við útför heiðursborgara, þegar þar að kemur, að beiðni

aðstandenda

Nú er málum þannig háttað að undirritaður situr í sveitarstjórn Norðurþing sem kjörinn fulltrúi. Málið hefur því miður hvergi verið rætt í sveitarstjórn né ákvörðun tekin um veitingu titilsins Heiðursborgari Húsavíkur/Norðurþings. Því miður er málið þannig vaxið að hér er um „falsfrétt“ að ræða sem sveitarstjóri og formaður byggðarráðs Norðurþings, virðast samkvæmt fjölmiðlum, bera alfarið ábyrgð á, þar sem sveitarstjórn hefur ekki fjallað um málið.

Það sem vekur mikla furðu hjá undirrituðum er að sendiherra Íslands í Svíþjóð, hefur (samkvæmt fjölmiðlum) fyrir hönd sveitastjóra Norðurþings veitt okkar yndislegu Molly titil heiðursborgara, með þeirri ábyrgð sem því fylgir. Svo virðist sem sendiherra Íslands í Svíþjóð hafi ekki tryggt að sú heiðursnafnbót sem hann afhenti fyrir hönd Húsavíkur/ Norðurþings eigi við rök að styðjast. En sennilega er það ósanngjörn krafa til sendiherrans að fylgjast með stjórnsýsluafgreiðslum í litlu sveitarfélagi á Norðurlandi.

Í flestum sveitarfélögum landsins, líður langt á milli þess sem einstaklingum er úthlutað heiðursborgara titli. Ef ég man rétt þá var það síðast gert á Húsavík  um 1980, Guðrún Þórðardóttir sem var þá 100 ára og hafði staðið fyrir heimili alla sína tíð með sonum sínum. Tákn fyrir samheldni og góðri umgjörð heimilis- kjarna lífsgæða og öryggis. Tákn hinna glæsilegu íslensku konu sem tryggt hefur velferð lands og þjóðar svo öldum skiptir.

Að lokum kæra Molly, takk fyrir allt sem þú hefur fært Húsavík með þínum hæfileikum, gleði og gæsku. Í mínum huga eru þú eistaklingur ársins á Húsavík, þó svo að heiðursnafnbótin heiðursborgari hafi ekki verið samþykkt. Hver veit nema að það verði gert síðar og þá af þar til bærum aðilum.

Virðingarfyllst

Bergur Elías Ágústsson

Sveitarstjórnarfulltrúi í Norðurþing


Athugasemdir

Nýjast