10. mars, 2008 - 17:05
Fréttir
Hannes Karlsson var endurkjörinn formaður stjórnar KEA á fyrsta fundi nýrrar stjórnar að loknum aðalfundi félagsins um helgina. Björn
Friðþjófsson var endurkjörinn varaformaður stjórnar og Jóhannes Ævar Jónsson var endurkjörinn ritari. Ein breyting varð á
stjórn KEA, Benedikt Sigurðarson gaf ekki kost á sér til endurkjörs og var Njáll Trausti Friðbertsson kosinn í stjórn í hans stað.
Eins og fram hefur komið var kosið um fjögur sæti í stjórn KEA á aðalfundinum. Kjörtímabili þeirra Benedikts Sigurðarsonar,
Björns Friðþjófssonar, Hannesar Karlssonar og Úlfhildar Rögnvaldsdóttur var lokið en þau þrjú síðastöldu gáfu
kost á sér til endurkjörs og náðu öll sæti í stjórn áfram.
Benedikt hins vegar tilkynnti að hann gæfi ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu og flutti
langa ádrepu af því tilefni. Hann þakkaði síðan samstarfsmönnum sínum samstarfið og í lok fundar fékk Hannes
Karlsson fundarmenn til að klappa sérstaklega fyrir Benedikt í þakklætisskyni fyrir störf hans. Til viðbótar gáfu kost á sér
í stjórnina Ásgeir Helgi Jóhannsson, Birgir Guðmundsson, Njáll Trausti Friðbertsson, Sigmundur Ófeigsson og Sigurður Eiríksson. Alls voru
greidd atkvæði 102 og fengu þau Björn Friðþjófsson og Úlfhildur Rögnvaldsdóttir flest atkvæði eða 87, Hannes Karlsson
fékk 64 atkvæði og Njáll Trausti 60. Þá voru þrír kosnir í varastjórn KEA, þau Birgir Guðmundsson, Guðný
Sverrisdóttir og Ásgeir Helgi Jóhannsson.