19. febrúar, 2008 - 11:04
Fréttir
Samkvæmt ársreikningi KEA fyrir árið 2007 nam hagnaður félagsins rúmum 913 milljónum króna eftir skatta samanborið við 287
milljóna króna hagnað árið áður. Bókfært eigið fé félagsins um síðustu áramót nam rúmlega 5,4
milljörðum króna og heildareignir voru tæpir 5,8 milljarðar. Markaðsverðbréf námu tæpum 2,8 milljörðum og
fjárfestingaverðbréf tæpum 2,2 milljörðum. Eiginfjárhlutfall félagsins var 94% um síðustu áramót. Hreinar rekstrartekjur
ársins voru 781 milljón króna og rekstrargjöld 106 milljónir. Halldór Jóhannsson framkvæmdastjóri KEA er ánægður með
afkomu síðasta árs.
„Afkoma félagsins er vissulega góð miðað við hvernig markaðir þróuðust á síðasta ári. Félagið jók
vægi óskráðra hlutabréfa í eignasafni sínu á árinu. Staða í innlendum skráðum hlutabréfum var minnkuð
verulega á haustmánuðum og félagið lenti ekki í þeim hremmingum sem margir aðrir fjárfestar hafa glímt við undanfarna
mánuði. Félagið hefur beitt varfærnislegum reikningsskilareglum við mat óskráðra eigna og ætla má að þar sé
talsverður óinnleystur hagnaður. Efnahagur KEA er sterkur og þarf að vera það áfram, ekki síst í ljósi núverandi ástands
á fjármálamörkuðum. Félagið er vel sett til að nýta sér þau tækifæri sem upp kunna að koma í bráð og
lengd og ég er nokkuð bjartsýnn á framhaldið þó umgjörð fjármálakerfisins sé mikilli óvissu háð um
þessar mundir," segir Halldór.