Öðru hvoru koma fram kröfur um að stjórnvöld þrengi að auglýsendum hvað varðar auglýsingar sem beint er að börnun. Yfirleitt eru þær byggðar á því að börn skilji ekki tilgang þeirra og / eða þau geti ekki gert greinarmun á þeim og dagskrárefni eða þá að auglýsingar hafi neikvæð áhrif á þau.
Rétt er að taka fram að börn eru mikilvægur markhópur. Þau eru kaupendur ýmissa vara og þjónustu, hafa oft sitt að segja varðandi kaup fjölskyldunnar og verða markhópur margra auglýsenda í framtíðinni. Þeir hafa því eðlilega mikinn áhuga á því að geta beint auglýsingum sínum að þeim. Ef takmarka á þann rétt þeirra er lágmarkskrafan sú að sýnt sé fram á að auglýsingar hafi neikvæð áhrif á þau!
Fyrra álitamálið varðandi auglýsingar, sem beint er að börnum, er hvort þau skilji sölutilgang þeirra og / eða geti gert greinarmun á þeim og dagskrárefni? Niðurstöður rannsókna benda til þess að börn undir 6 ára aldri skilji ekki að auglýsingum er ætlað að selja en byrji að gera það við 6-7 ára aldurinn. Þær sýni jafnframt að börn byrja að geta greint á milli auglýsinga og dagskrárefnis þegar þau eru 4-7 ára.
En það væri heldur ekki nóg að geta sýnt fram á að börn undir ákveðnum aldri skildu ekki að tilgangur auglýsinga væri að selja. Það þyrfti einnig að sýna fram á að munur væri á þeim áhrifum sem auglýsingar hefðu eftir því hvort börn skildu tilgang þeirra eða ekki! Engar rannsóknir hafa sýnt fram á að börn, sem ekki gera sér grein fyrir sölutilgangi auglýsinga, verði fyrir meiri áhrifum af þeim heldur en þau sem gera sér grein fyrir honum. Jafnframt hefur verið bent á að þau börn sem skilja ekki hver tilgangur auglýsinga er geti orðið fyrir minni áhrifum af þeim en þau sem vita hvað þeim er ætlað að gera!
Seinna álitamálið, sem varðar auglýsingar sem beint er að börnum, er hvort þær hafi neikvæð áhrif á þau? Með rannsóknum hefur ekki verið sýnt fram á bein tengsl milli auglýsinga og kaupa barna á vörum/þjónustu. Þær hafi, á hinn bóginn, sýnt að mikilvægustu áhrifavaldanir séu foreldrar og jafnyngjar.
Atferlisleg vandamál barna endurspegla að miklu leyti atferli foreldra. Ef rót vandans er ekki rétt skilgreind eru teknar ákvarðanir, sem einungis auka á vandann þegar til lengri tíma er litið. Sú spurning verður hins vegar æ áleitnari hvort því fé sem varið er til auglýsingagerðar og birtinga, og beint er að börnum í forvarnarskyni, sé vel varið. Fyrst erfiðlega hefur gengið að að sýna fram á að auglýsingar hafi neikvæð áhrif á atferli barna er væntanlega jafn erfitt að sýna fram á að þær hafi jákvæð áhrif á það!
-Friðrik Eysteinsson, rekstrarhagfræðingur