06. mars, 2008 - 18:19
Fréttir
Lionsklúbburinn Hængur er 35 ára í dag og af því tilefni komu forsvarsmenn klúbbsins færandi hendi á Sjúkrahúsið á
Akureyri. Þeir afhentu forsvarsmönnum spítalans peningagjöf sem ganga á upp í kaup á nýjum beinþéttnimæli. Halldór
Jónsson forstjóri FSA tók Lionsmönnum fagnandi og þakkaði þeim fyrir þessa höfðinglegu gjöf. Halldór upplýsti jafnframt
að fjármögnun til kaupa á beinþéttimælinum væri lokið, búið væri að panta einn slíkan og að von væri á
honum innan tíðar. Þorvaldur Ingvarsson, framkvæmdastjóri lækninga á FSA, sagði að beinþéttnimælirinn kostaði 8-9
milljónir króna.
Þorvaldur sagði að beinþéttnimælir væri mjög mikilvægt tæki fyrir spítalann. Fólki yfir sextugt væri hættara við
að brotna en þeim sem yngri eru og með mælingu væri hægt að fylgjast betur með og þá grípa til aðgerða. Hægt er að gefa
lyf til að minnka áhættu á beinbroti hjá eldra fólki, sem Þorvaldur sagði að væri mikið vandamál í dag. Það voru
nafnarnir Jón Heiðar Árnason formaður Hængs, Jón Heiðar Daðason gjaldkeri og Jón Birgir Guðmundsson ritari sem heimsóttu FSA í dag.
Þar tóku á móti þeim Halldór Jónsson forstjóri, Þorvaldur Ingvarsson framkvæmdastjóri lækninga, Vignir Sveinsson
framkvæmdastjóri fjármála og reksturs og Ólína Torfadóttir framkvæmdastjóri hjúkrunar en saman skipa þau
framkvæmdastjórn spítalans. Í kvöld halda Hængsmenn hátíðarfund í tilefni dagsins en þetta mun vera í fyrsta skipti
í 35 ára sögu klúbbsins sem afmælisdaginn ber upp á hefðbundinn fundardag.