Guðlaugur Arason sýnir Álfabækurnar á Húsavík
Í síðustu viku opnaði Guðlaugur Arason, rithöfundur og myndlistarmaður, sýningu í kjallara Safnahússins á Húsavík. Þessi sýning er um margt ólík öllum öðrum sýningum í þessu húsi fyrr og síðar, því hér er verið að sýna Álfabækur.
Álfabækur Gulla Ara hafa vakið verulega athygli víða og ekki bara hérlendis. Það eru ekki margir íslenskir listamen sem fást við svokallaða miniature listsköpun, þar sem hið örsmáa er í öndvegi. Álfabækurnar eru nákvæm eftirlíking af allra handa íslenskum og erlendum bókum, blöðum, tímaritum, bæklingum sem raðað er í litlar bókhillur.
Gulli Ara er ekki alveg ókunnugur á Húsavík, bjó hér um skeið fyrir langa löngu og réri á trillu. Hann sló gegn sem rithöfundur með bókum á borð við Eldhúsmellur, Víkursamfélagið og Pelastikk. Hann hefur búið erlendis um árabil og stundað myndlist og sitthvað fleira en er enn að fást við skriftir. Og Gulli er sem sé fluttur heim á klakann á ný eftir langa útlegð.
En nefnir þetta Álfabækur af því að þær eru svona örsmáar? „Nei, í sjálfu sér ekki. Ég var að skrifa frásögn um álfa þegar ég fékk þessa hugmynd og það kveikti nafnið hjá mér og sama dag fékk ég bréf frá aldraðri vinkonu minni í Danmörku sem stakk upp á þessu sama nafni, þannig að þetta steinlá bara, sem sé Álfabækur.“
Sýning Gulla Ara, sem notar listamannsnafnið Garason þegar hann sýnir Álfabækurnar, (auðvelt að muna og bera fram í flestum löndum, segir hann) mun standa út júní. JS