25. febrúar, 2008 - 16:02
Fréttir
Viðgerð á nýrri Grímseyjarferju, Sæfara, sem staðið hefur yfir hjá Slippnum Akureyri undanfarið er að ljúka og var skipið
sjósett á ný nú fyrir fáum mínútum. Eins og fram kom í samtali við Hjört Emilsson hjá Navis, sem er eftirlitsaðili með
framkvæmdum við Grímseyjarferju, í Vikudegi í síðustu viku, komu ýmis aukaverkefni upp í þeirri vinnu sem fram fór hjá
Slippnum. Því til viðbótar komu upp smábilanir, m.a. í siglingu til Akureyrar á dögunum.
Hjörtur sagði að einnig hafi orðið dálitlar tafir á komu varahluta og búnaðar sem pantað var í skipið. Hann sagði skipið
nú mjög gott, enda hafi verið gerðar á því róttækar og gagngerar endurbætur, „það er svo gott sem nýtt," sagði
Hjörtur.