Gríðarlegar samdráttur í lönduðum afla á Akureyri milli ára

Gríðarlegur samdráttur varð í lönduðum afla hjá Hafnasamlagi Norðurlands á síðasta ári miðað við árin á undan og munar þar mestu um lokun fiskimjölsverksmiðjunnar í Krossanesi. Árið 2007 var landaður afli á Akureyri um 18.900 tonn, árið áður var landaður afli tæplega 42.400 tonn og er munurinn á milli ára ríflega 23.000 tonn. Ekki einu einasta tonni af síld eða loðnu var landað á Akureyri á síðasta ári og munar um minna. Árið 2006 var um 15.500 tonnum af uppsjávarfiski, þ.e. síld og loðnu, landað á Akureyri en árið 2005 var uppsjávaraflinn rúmlega 43.000 tonn. Það er sama hvar borið er niður í lönduðum afla, alls staðar hefur orðið samdráttur á milli ára. Landaður bolfiskafli í fyrra var um 6.400 tonn eða um 4.000 tonnum minni en árið áður. Rúmlega 10.100 tonnum af frystum fiski var landað á Akureyri í fyrra, sem er samdráttur upp á tæplega 3.000 tonn á milli ára. Samdráttur í lönduðum rækjuafla nam um 1.100 tonnum á milli ára en alls var landað rúmlega 2.300 tonnum af rækju í fyrra. Samkvæmt yfirliti frá Hafnasamlagi Norðurlands sem nær aftur til ársins 1987, hefur heildaraflinn aðeins einu sinni farið yfir 100.000 tonn á ári en árið 2002 var landaður afli á Akureyri tæplega 106.000 tonn. Árið 2005 var landaður afli á Akureyri rúmlega 65.600 tonn, árið 1996 var aflinn um 96.200 tonn og árið eftir rúmlega 91.600 tonn.

Einnig hefur orðið mikill samdráttur í sjóflutningum til og frá Akureyri á undanförnum árum enda orðin nokkur ár frá því að stóru skipafélögin Eimskip og Samskip hættu áætlunarsiglingum til Akureyrar. Á móti hóf Dregg Shipping sjóflutninga til og frá Akureyri á síðasta ári en eftir að Axel, flutningaskip félagsins, strandaði undir lok síðasta árs, varð mun minna úr þeim flutningum en til stóð. Heildarflutningar sjóleiðina til og frá Akueyri í fyrra námu tæpum 13.000 tonnum og þar af var flutningur á olíu ríflega 7.100 tonn. Árið 2003 námu sjóflutningar til og frá Akureyri tæpum 37.000 tonnum, tæpum 34.000 tonnum árið 1999 og rúmlega 31.000 tonnum árið 1996.

Nýjast