03. apríl, 2008 - 15:27
Fréttir
Ungir Jafnaðarmenn á Akureyri hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem þeir harma ummæli Sigrúnar Ámundadóttur hjá Orkuveitu
Reykjavíkur fyrr í morgun, "þar sem hún fer niðrandi orðum um fólk sem hefur kosið að búa á landsbyggðinni," eins og segir
í yfirlýsingunni. OR auglýsti í Morgunblaðinu í dag notuð líkamsræktartæki og á visir.is er frétt um málið
þar sem m.a. haft er eftir Sigrúnu að tækin séu mörg hver komin til ára sinna og séu ekki boðleg líkamsræktarstöðvum
í Reykjavík. „Þetta eru engu að síður tæki sem stöðvar úti á landi geta boðið sínum viðskiptavinum, við
gerum nefnilega minni kröfur úti á landi," segir Sigrún á visir.is. Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi OR, segir á mbl.is
að fréttin sem birt er á vísir.is í dag um sölu Orkuveitu Reykjavíkur á gömlu líkamsræktartækjunum vera
þvætting.
Eiríkur segir ekkert hæft í fréttinni annað en það að umrædd tæki hafi verið auglýst til sölu. Fyrirtækið
hafi hins vegar alls enga ákveðna kaupendur í huga og Sigrún, sem sjálf sé landsbyggðarkona, kannist ekki við að hafa sagt
það sem eftir henni er haft.
Ungir Jafnaðarmenn á Akureyri segja jafnframt í yfirlýsingu sinni að fólk sem hafi kosið að búa á landsbyggðinni geri sömu
kröfur á þá þjónustu og aðrir landsmenn og skiptir þá ekki máli hvort um sé að ræða
líkamsræktarstarfsemi eða orkusala. "Með orðum sínum er Sigrún einnig að tala niðrandi um stóran hluta viðskiptamanna sinna en
mikið af íbúum höfuðborgarsvæðisins og þar af leiðandi viðskiptamenn Orkuveitunnar er fólk sem hefur flutt af landsbyggðinni. Vona Ungir
Jafnaðarmenn á Akureyri að Sigrún sjái sóma sinn í því að biðjast afsökunar á þessum ummælum sínum."