Glæsilegur 5-1 sigur hjá Þór/KA á ÍR

Þór/KA vann í kvöld glæsilegan 5-1 sigur á ÍR í síðasta heimaleik sínum í sumar. Leikurinn fór fram í Boganum, enda veðrið utandyra ekki gott.

Þór/KA var mun betri aðilinn allan leikinn eins og tölurnar gefa til kynna. Strax á 10. mínútu skoruðu ÍR-ingar sjálfsmark og stuttu síðar jók Ivana Ivanovic muninn með glæsilegu einstaklingsframtaki þar sem hún lék á tvo leikmenn áður en hún renndi boltanum í netið af stuttu færi.

Þriðja mark Þórs/KA kom svo stuttu fyrir leikhlé og var það jafnframt glæsilegasta mark leiksins. Pamela Liddell skoraði þá úr aukaspyrnu af um 25 metra færi, efst í markhornið.

Í síðari hálfleik byrjuðu ÍR-ingar eilítið betur og náðu að minnka muninn á 58. mínútu með góðu skoti rétt utan teigs.

Þórs/KA stelpur hins vegar lögðu alls ekki árar í bát og bættu í af fullum krafti. Ivana Ivanovic og Inga Dís Júlíusdóttir unnu frábærlega saman og lögðu upp mark fyrir Örnu Sif Ásgrímsdóttur þegar um 25 mínútur voru til leiksloka.

Síðasta naglann í kistu ÍR-inga rak síðan Rakel Hönnudóttir þegar hún skoraði af stuttu færi eftir undirbúning Ivönu Ivanovic.

Glæsilegur 5-1 sigur staðreynd og síst of stór. Nú er það ljóst að Þór/KA heldur sæti sínu í deildinni. En ÍR er fallið þar sem Fylkir vann sinn leik.

Nýjast