Gamla fréttin: Ríkisþensluna út á land
Gamla fréttin er úr Þjóðviljanum að þessu sinni og birtist 10. október 1990. Fréttin fjallar um ójafnvægi í byggðamálum og tillögur um að ný störf á vegum hins opinbera verði utan höfuðborgarsvæðisins. Það væri líklega hægt að skrifa svipaða frétt í dag:
Rúmlega 18 þúsund ný störf urðu til á árunum 1981- 1988, en þar af varð aðeins eitt af hverjum sex til utan höfuðborgarsvæðisins. Þessi störf eru nánast öll í opinberri starfsemi og þjónustu og mörg eru til komin vegna beinna ákvarðana stjórnvalda. Byggðastofnun hefur bent á það sem leið til jafnvægis í byggðamálum að ríkið stöðvi þenslu sína á höfuðborgarsvæðinu, en hleypi henni þess í stað út á landsbyggðina á næstu árum.
Fulltrúar Háskólans á Akureyri vöktu athygli á þessu á ráðstefnu byggðanefndar forsætisráðherra um mótun byggðastefnu, sem haldin var í Borgarnesi á mánudaginn.
„Ef það á að vera pólitískt markmið byggðastefnu að snúa við þeirri þróun sem nú er í gangi verður að gera það með því að segja: Næstu 10 þúsund störf í opinberri starfsemi og þjónustu eiga að vera utan höfuðborgarsvæðisins. Þjónustustigið á landsbyggðinni verður að vera það sama og á höfuðborgarsvæðinu ef stöðva á búseturöskunina," sagði Jón Þórðarson, forstöðumaður sjávarútvegsdeildar Háskólans á Akureyri.
Gert er ráð fyrir því að ný störf á íslandi í framtíðinni haldi áfram að verða til í opinberri starfsemi og þjónustu, enda er það í samræmi við þróunina á Norðurlöndunum. Hins vegar mun störfum i landbúnaði og sjávarútvegi halda áfram að fækka. Á árunum 1981-1988 fækkaði störfum i landbúnaði um 1147 og um 1291 í fiskvinnslu, samkvæmt tölum frá Byggðastofnun.
Margrét Tómasdóttir, forstöðumaður hjúkrunarsviðs Háskólans, sagði á ráðstefnu byggðanefndar í Borgamesi að ef fjöldi lækna og hjúkrunarfræðinga á Akureyri, Húsavík og á Sauðárkróki væri hlutfallslega sambærilegur við það sem er í Reykjavík, gætu orðið til hundruð nýrra starfa nyrðra. Margrét segir hundruð ef ekki þúsund ársverka í heilbrigðisþjónustu á höfuðborgarsvæðinu byggja á þjónustu við íbúa landsbyggðarinnar og spyr: Er þetta byggðastefna?