Í nóvember 2005 kom staðgengill heilbrigðisfulltrúans á Norðausturlandi því á framfæri við lögreglu að íbúi á Húsavík hefði tilkynnt um vopn, eiturefni og jafnvel sprengiefni sem væru aðgengileg almenningi, þar sem hver sem væri kæmist inn á neðri hæð hússins, þar sem vopnin og efnin væru. Lögregla fór inn í húsnæðið og kveður dyr að neðri hæð hússins hafa verið ólæstar og hafi hver sem var getað farið þar inn. Eiturefni, skotfæri og skotvopn hafi verið þar á víð og dreif. Tók lögregla vopnin í sína vörslu og einnig vopn sem voru í íbúð á efri hæð að ósk húsráðanda.
Seint í nóvember 2005 var brotist inn á heimili ákærða í Norðurþingi. Brotin var þverslá úr byssurekka sem stóð á gangi og teknir úr honum rifflar og haglabyssa. Byssur og einn bogi höfðu hangið á vegg og hafði þeim einnig verið stolið. Lykill að stofuskenk hafði verið tekinn úr skúffu, sem ákærði kvað engan eiga að vita um nema sig og fjölskyldu sína. Úr skenknum hafði verið stolið skammbyssu og fjórum startbyssum. Ákærði lagði hart að sér við að aðstoða lögreglu við að upplýsa málið. Með tilstyrk hans hafði lögregla upp á öllum vopnunum nema skammbyssunni, sem mun enn vera ófundin.