Fyrsta einkaskurðstofan opnuð á Akureyri

Starfsemi Læknastofa Akureyrar flyst í Krónuna við Hafnarstræti innan skamms og við það tækifæri tekur til starfa fyrsta einkaskurðstofan í bænum. „Við vonumst til þess að geta opnað á nýjum stað sem fyrst eftir næstu áramót," segir Svanlaug Skúladóttir framkvæmdastjóri Læknastofa Akureyrar. Starfsemin flyst á 6. hæð í byggingunni og verður mun rýmra um hana en á núverandi stað við Hofsbót. „Við teljum brýnt að opna einkaskurðstofu sem þessa, slíkar stofur eru í nokkrum mæli í Reykjavík og þar hefur eftirspurn eftir aðgerðum verið mikil," segir Svanlaug. Hún nefnir að með þessu fyrirkomulagi verði kostnaður af aðgerðum minni en ef sömu aðgerðir eru gerðar á sjúkrahúsum, afköst eru meiri, fleiri komast að og því minnki biðlistar. Alls eru nú starfandi 6 læknar á Læknastofum Akureyrar, m.a. bæklunarskurðlæknir, þvagfæraskurðlæknir, kvensjúkdómalæknir, lýtalæknar og svæfingalæknir. Svanlaug segir því ljóst að aðgerðir af ýmsu tagi yrðu gerðar á skurðstofunni. Þá væri ekkert því til fyrirstöðu að leigja aðstöðuna öðrum læknum sem eftir myndu leita. Eins væri opið hvort fleiri myndu bætast í hóp þeirra lækna sem fyrir eru á stofunni, en húsnæði væri til staðar, bæði fyrir fleiri lækna sem og aðra skurðstofu.

Nýjast