Helga Kristjánsdóttir er prófessor og hagfræðingur við Viðskiptadeild Háskólans á Akureyri. Rannsóknir hennar eru einkum á sviði alþjóðahagfræði.
Helga hefur verið virk í rannsóknum og sinnt umfangsmiklum fræðastörfum. Meðal annars með birtingum hjá Springer, Elsevier og Routledge Taylor & Francis. Hún á fjölda ritrýndra alþjóðlegra vísindagreina á vefnum Web of Science ISI. Sérhæfing hennar er á sviði viðskipta- og hagfræði með áherslu á alþjóðahagfræði. „Smá hagkerfi reiða sig yfirleitt meira á alþjóðaviðskipti en stór hagkerfi, í formi innflutnings sem þau mæta með útflutningi. Í smáum hagkerfum felast tækifæri til vaxtar fyrirtækja oft í alþjóðlegum viðskiptatækifærum, sem leitt getur til aukinnar stærðarhagkvæmni í framleiðslu,“ segir Helga.
Rannsóknir Helgu hafa verið á sviði þjóðhagfræði, sem og viðskiptafræði með greiningu milliríkjaviðskipta. Einnig á sviði alþjóðlegrar fjárfestingar í formi svokallaðrar beinnar erlendrar fjárfestingar, í tengslum við endurnýjanlega orku og sjálfbærni. Jafnframt hefur Helga rannsakað ferðaþjónustu.
Vísindagreinar Helgu fjalla meðal annars um fræðilegan grunn alþjóðahagfræði og beina erlenda fjárfestingu. „Með því að ráðast í beina erlenda fjárfestingu (BEF) sem að jafnaði miðast við 10% eða hærri hlut, verður fyrirtækið sem ræðst í fjárfestinguna að fjölþjóðafyrirtæki. Alþjóðaviðskipti kunna því að fela í sér beina erlenda fjárfestingu (BEF) í öðru landi. Fyrirtæki með höfuðstöðvar í tilteknu landi ráðast stundum í slíka fjárfestingu til að fá aðgang að erlendum markaðsvæðum, sem kann að vera þeim hagfellt að teknu tilliti til tolla og útflutningskostnaðar. Við gerð líkana á sviði alþjóðahagfræði, er meðal annars tekið tillit til menningar einstakra landa, þar sem svipuð menning liðkar fyrir viðskiptum“ segir Helga.
Helga var fyrsti doktorsnemi til þess að ljúka doktorsprófi við Viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands. Doktorsritgerð Helgu bar titilinn Determinants of Exports and Foreign Direct Investment in a Small Open Economy. Í doktorsritgerðinni var leitast við að skýra hvað knýr útflutning og beina erlenda fjárfestingu í smáu opnu hagkerfi á borð við Ísland. Í doktorsritgerðinni er stuðst við kenningar í alþjóðahagfræði með áherslu á hagrannsóknir
Helga er úr Eyjafirði, hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1989 og BS prófi í hagfræði frá Háskóla Íslands árið 1992. Hún lauk jafnframt MBA gráðu í stjórnun frá Boston College, í Boston, Massachusetts, í Bandaríkjunum árið 1995 og meistaraprófi MS í hagfræði frá Catholic University of Leuven í Belgíu árið 2000. Loks lauk hún doktorsprófi í hagfræði árið 2004 frá Háskóla Íslands. Eftir að hafa lokið doktorsprófi árið 2004 var Helga stundakennari við Háskóla Íslands, Háskólann á Bifröst, Háskólann á Akureyri og orkuháskólann REYST, þar sem hún kom að kennslu 1-2 námskeiða á ári að meðaltali yfir tímabilið 2005 til 2017. Frá árinu 2018 hefur Helga hefur starfað sem lektor, dósent og prófessor við Viðskiptadeild Háskólans á Akureyri, auk þess að vera virk í rannsóknum. Þá varð Helga fyrst kvenna til þess að verða prófessor við Viðskiptadeild Háskólans á Akureyri.
Frá árinu 2002 hefur Helga verið fulltrúi Íslands í samstarfi fræðimanna á Norðurlöndunum, í Svíþjóð, Noregi, Danmörk og Finnlandi á sviði alþjóðahagfræði og ráðstefnuhaldi í tengslum við NOITS ráðstefnuna og annast skipulagningu og fjármögnun ráðstefnunnar á Íslandi.