Fyrirtækið SS Byggir hefur lengi stefnt að uppbyggingu á Sjallareitnum

Fyrirtækið SS Byggir hefur stefnt að umfangsmikilli uppbyggingu á Sjallareitnum svokallað í miðbæ Akureyrar en lítið orðið ágengt. Um tíma stóð til að reisa á reitnum þrjá 16 hæða turna með 150-180 íbúðum. Sigurður Sigurðsson framkvæmdastjóri segir að þetta ferli hafi tekið sex ár, málið sé í biðstöðu og ekki sjái fyrir endann á því. "Í dag veit ég ekki neitt og þetta verkefni, Akureyri í öndvegi, hefur aðeins orðið til þess að hægja á framkvæmdum í miðbænum í stað þess að koma hlutunum af stað. Það stefnir í niðursveiflu í þjóðfélaginu en á meðan uppsveiflan var hvað mest var öllu haldið í gíslingu í miðbænum og framkvæmdir stöðvaðar," segir Sigurður m.a. í ítarlegu viðtali við Vikudag sem kom út sl. fimmtudag en fyrirtæki hans fagnar 30 ára afmæli um þessar mundir. Á þessum áratugum hefur fyrirtækið byggt tæplega 500 íbúðir og mörg af reisulegustu húsum bæjarins. Sigurður segir að bæjarkerfið sé mjög seinvirkt og það taki allt of langan tíma að fá niðurstöðu í einstaka málum, hvort sem svarið er já eða nei. Það sé svo sem ekki við öðru að búast á meðan bæjarfulltrúar sinni því hlutverki sínu sem einhverri hobbívinnu, eins og hann orðar það. Vinni fulla vinnu annars staðar, fara svo eftir það að sinna bæjarmálunum, slíkt gangi einfaldlega ekki upp. SS Byggir sótti á sínum tíma um lóðir undir íbúðir á Nesjasvæðinu svokallaða, þar sem hafa verið reist fjölmörg iðnaðar- og verslunarhúsnæði. Sigurður sagði að rökin fyrir því að hann fékk ekki lóðir undir íbúðarhús á svæðinu, hafi verið lykt frá Krossanesverksmiðjunni. "Ég held að allir sjái það í dag að á þessu svæði átti aðeins vera íbúðabyggð og ekkert annað. Þetta er eitt fallegasta svæði bæjarins með frábært útsýni til allra átta." Hann segist binda vonir við að bæjaryfirvöld sjái að sér og hætti við að taka svæðið við Ytra-Krossanes undir iðnaðarsvæði. "Það er mjög röng pólitík í því að taka strandlengju undir iðnaðarhúsnæði," segir Sigurður m.a. í viðtalinu.

Nýjast