20. apríl, 2008 - 15:18
Fréttir
Á fundum sem haldnir voru í Hlíðarbæ og Freyvangi um þjóðlendukröfur fjármálaráðherra í landeignir á
syðri hluta svæðis 7, kom fram að kröfugerðin gengi óvenju langt og því skipti samstaða landeigenda miklu máli.
Innan svæðis 7 fellur innsti hluti Skagafjarðar, Hörgárbyggðar, Glerárdalur og Eyjafjarðarsveit. Yfir hundrað manns mættu á fundina.
Fulltrúar úr stjórn Landssamtaka landeigenda á Íslandi, þau Guðný Sverrisdóttir og Rögnvaldur Ólafsson, gerðu
ítarlega grein fyrir afstöðu samtakanna til þjóðlendumálanna og framgöngu ríkisvaldsins sem og þeim aðgerðum sem samtökin hafa
gripið til í þeim tilgangi að fá ríkisvaldið til að stilla kröfum sínum í hóf. Hafa þau m.a. beitt sér fyrir
breytingu á lögum um þjóðlendur og fleira frá árinu 1998 í þeim tilgangi að tryggja landeigendum sterkari stöðu og afmarka betur
þau svæði sem kröfugerð ríkisvaldsins beindist þá gegn. Það var samdóma álit Guðnýjar og Rögnvalds að
sú kröfugerð sem hér er til umjöllunar gangi óvenju langt. Þinglýst landamerkjabréf eru ekki virt, krafa er gerð í sameiginleg
afréttar- og beitarlönd, og farið er niður í miðjar fjallshlíðar og fleira. Lögfræðingar sem á fundunum voru og boðið hafa
landeigendum aðstoð sín tóku mjög undir þessa gagnrýni og hvöttu alla landeigendur til að bregðast til varnar. Samstaðan skipti máli.