16. desember, 2007 - 18:47
Fréttir
Ákveðið hefur verið að fullnaðarviðgerð á flutningaskipinu Axel fari fram erlendis, í Litháen eða Póllandi, en ekki á Akureyri eins og áður hafði verið ákveðið. Starfsmenn Slippsins Akureyri munu hins vegar gera bráðabirgðarviðgerð á skipinu, svo hægt verði að sigla því utan til fullnaðarviðgerðar og er vonast til að sú vinna taki ekki nema um tvær vikur. Bjarni Sigurðsson, framkvæmdastjóri Dregg Shipping, eiganda Axels, sagði að þetta hafi orðið niðurstaðan við frekari skoðun á málinu. Miklar skemmdir urðu á botni skipsins er það strandaði við Hornafjörð á dögunum og er tjónið áætlað á annað hundrað milljónir króna. Bjarni sagði að um leið og búið væri að skrifa undir samninga erlendis, væri hægt að hefja forvinnu þar. Því ætti heildarviðgerðin á skipinu ekki að tefjast mikið frá upphaflegum áætlunum, þótt sigla þurfa skipinu til Litháen eða Póllands. Áætlað er að viðgerðin taki um einn og hálfan til tvo mánuði og er unnið að því að leigja annað flutningaskip á meðan. Sjópróf vegna strandsins áttu að fara fram hjá Héraðsdómi Norðurlands sl. föstudags en var frestað vegna veðurs og ófærðar. Ráðgert er að sjópróf fari fram á morgun, mánudag.