Frjálsíþróttavöllur á Þórssvæðið

Forsvarsmenn Íþróttafélagsins Þórs og vinnuhópur á vegum Akureyrarbæjar handsöluðu í morgun nýjan samning um uppbyggingu íþróttamannvirkja á svæði Þórs og þar verður frjálsíþróttavöllur bæjarins staðsettur samkvæmt samkomulaginu frá í morgun. Eins og fram hefur komið voru uppi hugmyndir um að byggja frjálsíþróttavöll í Naustahverfi. „Við þokuðumst nær lausn á fundi í fyrradag en það voru enn lausir endar eftir þann fund og menn eru að reikna og skoða ýmsa hluti," segir Ólafur Jónsson sem farið hefur fyrir viðræðuhópi Akureyrarbæjar í málinu. „Í morgun náðum við svo lendingu í málinu og það voru ýmis áherslu- og útfærsluatriði sem eru öðruvísi í þessum samningi en hinum fyrri sem aðalfundur Þórs felldi. Það verður skrifað undir þennan samning á næstu dögum, þegar bæjarstjóri kemur aftur til starfa," sagði Ólafur.

Nýjast