15. apríl, 2008 - 19:59
Fréttir
Frjáls innflutningur á kjöti getur haft skelfilegar afleiðingar í för með sér á Norður- og Austurlandi, slíkt gæti leitt til
samdráttar í landbúnaði sem hefði svo í för með sér fækkun starfa hjá þeim sem sinna úrvinnslu úr
landbúnaðarafurðum.
Undanfarið hafa miklar umræður orðið um breytingar sem ný matvælalöggjöf mun hafa í för með sér hér á landi, en
hún leiðir m.a. til þess að innflutningur á hráu kjöti verður heimilaður. Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegs- og
landbúnaðarráðherra nefndi þetta á fundi í Valhöll nýlega. Allt að 3000 störf á Norður- og Austurlandi tengjast
landbúnaði og úrvinnslu landbúnaðarafurða og telja forsvarsmenn kjötvinnslufyrirtækjanna á Akureyri, Kjarnafæðis og Norðlenska að
þau geti verið í hættu verði óheftur innflutningur á kjöti leyfður. Hvergi á landinu er matvælaframleiðsla jafnöflug og
á Akureyri, en menn sjá jafnvel fyrir sér hrun í greininni verði mikið flutt inn af kjöti frá útlöndum og tala um aðför að
afurðastöðvum, bændum og samfélaginu raunar öllu á þessu landssvæði.