Frítökuréttur, hvað er það?

Helga Dögg Sverrisdóttir.
Helga Dögg Sverrisdóttir.

Þegar rætt er við ungt fólk um kjarasamningsbundin réttindi stendur það oft á gati. Frítökuréttur er eitt af því sem mörg ungmenni verða af og alltof fá vita um eða þekkja. Vinnuveitendur hagnast á því, enginn annar. Frítökurétt öðlast þeir sem fá ekki tilskilda hvíld milli vakta eins og kjarasamningur kveður á um. Eitthvað sem bæði launþegi og vinnuveitandi á að passa upp á.

Á þeim stöðum þar sem unnið er á vöktum ber skipuleggjanda að passa upp á hvíldartímann. Ef hann gerir það ekki á starfsmaður rétt á frítökurétti og tímarnir safnast upp þar til hálfur eða heill vinnudagur næst í frítöku. Hvíldartíminn er til að tryggja starfsmanni nægilega hvíld á milli vakta. Fyrir hverja klukkustund sem vantar upp á lögboðna hvíld ber vinnuveitanda að greiða eina og hálfa klst. í  frítökurétt. Starfsmaður tekur þennan tíma út í fríi. Uppsafnaðan frítökurétt á að skrá á launaseðil viðkomandi.

Í veitinga- og ferðaþjónustugeiranum er víða pottur brotinn þegar kemur að þessum þætti kjarasamnings eins og mörgu öðru. Vaktir fólks eru skipulagðar þannig að upphafstími er gefinn en X stendur í stað vaktloka. Hvað þýðir X-ið. Jú vaktinni lýkur þegar vinnuveitandi segir launþeganum að fara heim. Þetta er kolólöglegt! Starfsmaður á að vita upphafstíma og vinnulok þegar hann mætir til vinnu og reyndar 4 vikum áður. Undantekning eru hlutastörf við sérstakar aðstæður þó aldrei með skemri fyrirvara en 2 vikur.  Misbrestur er á að vaktaskýrsla liggi fyrir með lögbundnum fyrirvara og er það með öllu ólíðandi.

Ég kalla foreldra til samræðu við börn sín um kjarasamninga. Verið með börnum ykkar þegar þau ráða sig til starfa, látið þau ekki skrifa undir einhverja bölvaða vitleysu þannig að verkalýðsfélagið geti ekki gengið í málið. Upplýsingar eru á vefsíðum félaganna og því hæg heimatök að kynna sér málið. Látið vinnuveitendur ekki hafa réttindi og laun af börnum ykkar.

Helga Dögg Sverrisdóttir

Nýjast