22. nóvember, 2007 - 20:32
Fréttir
Í tilefni af 110 ára afmæli Blaðamannafélags Íslands var efnt til sérstakrar sýningar á fréttamyndum sem spanna þann tíma sem félagið hefur verið við lýði. Það var Þorvaldur Örn Kristmundsson, fyrrum formaður Blaðaljósmyndarafélags Íslands í tólf ár, sem valdi myndirnar. Sýningin stóð yfir í Kringlunni í Reykjavík en er nú komin norður og var hún opnuð í bókasafni Háskólans á Akureyri í dag. Bókasafn HA er opið alla virka daga frá kl. 8:00-18:00 og á laugardögum frá kl. 12:00 - 15:00 og stendur sýningin fram í desember. Á sýningunni eru um 40 ljósmyndir eftir næstum jafn marga ljósmyndara. Leitast var við að tína til myndir sem teknar voru af blaðamönnum eða öðrum þeim sem höfðu sinnu og áhuga á að skrásetja fréttnæma atburði með þessari tækni. Hér er því um að ræða fréttaljósmyndir sem standa undir nafni þótt ljósmyndararnir sem myndirnar tóku hafi trúlega ekki skilgreint sig sem sérstaka fréttaljósmyndara. Það gerir myndir þeirra ekki síður áhugaverðar og í því úrvali mynda sem hér kemur fyrir almenningssjónir eru fjölmargar myndir frá því fyrir seinna stríð sem ekki hafa birst opinberlega áður. Sýnir þetta safn fréttaljósmynda að hjörtu fréttaljósmyndara allra tíma slá í takt, hvort heldur það er í dag eða fyrir 110 árum.