Framleiðir jólastjörnur í Eyjafjarðarsveit

Hreiðar Hreiðarsson, kenndur við Vín í Eyjafjarðarsveit, hefur hafið framleiðslu á jólastjörnum, í gömlu garðyrkjustöðinni við Hrafnagil, sem hann hyggst setja á markað nú fyrir jólin. Hreiðar sagði að þetta væri í fyrsta skipti sem jólastjörnur væru ræktaðar í Eyjafirði og fram til þessa hefur slík ræktun nær eingöngu farið fram sunnan heiða. "Þetta virðist ætla að ganga upp hjá mér en þetta er erfið og flókin ræktun. Ég hef notið góðrar leiðsagnar hjónanna í Garðyrkjustöð Ingibjargar í Hveragerði," sagði Hreiðar í samtali við Vikudag. Hann sagðist vera með nokkur hundruð jólastjörnur til boða en sala á þeim fer að mestu fram í kringum næstu mánaðamót. Hreiðar setti niður rótaða græðlinga í júlí í sumar og því er þessi ræktun nokkuð öðruvísi. "Það er skrýtið að vera rækta þetta frá miðju sumri og sjá þetta spretta í nóvember, þegar annar gróður er að drepast. Þetta eru viðkvæmar plöntur og erfiðar í flutningi og því er jákvætt að geta framleitt þær hér í firðinum," sagði Hreiðar.

Nýjast