Framkvæmdir geta haldið áfram á félagssvæði Þórs

Ekki kemur til þess að stöðva þurfi framkvæmdir á félagssvæði Þórs eins og stjórn félagsins hafði gert kröfu um, með bréfi til Hermanns Jóns Tómassonar formanns bæjarráðs Akureyri fyrir helgi. Ástæðan var sú að á fundi stjórnar Þórs með stjórn UFA staðfestist mikill ágreiningur um staðsetningu og uppröðun á stökksvæðum framan við stúkuna, sem að mati stjórnar Þórs skapaði allt of mikla fjarlægð áhorfenda við knattspyrnuvöllinn, sem var samkvæmt áætlunum 24,29 metrar. Niðurstaða frá fundi fulltrúa Þórs og bæjarins í morgun varð sú að fjarlægðin yrði 19,74 metrar. Breytingin tengist stökksvæðinu og hafa forsvarsmenn Þórs fallist á þessa breytingu og það munu fulltrúar UFA einnig hafa gert, samkvæmt því sem Vikudagur kemst næst. Framkvæmdir við uppbyggingu frjálsíþrótta- og knattspyrnuaðstöðu á svæði félagsins við Hamar geta því haldið áfram af fullum krafti.

Nýjast