19. nóvember, 2007 - 15:46
Fréttir
Bæjarstjórn Akureyrar styður hugmyndir um framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð. Á síðasta fundi bæjarstjórnar var samþykkt bókun með 11 samhljóða atkvæðum, þar sem fram kemur að bæjarstjórn líti svo á að staðsetning framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð muni styrkja búsetu og auka menntunarstig á svæðinu. Áhersla er lögð á að skólinn verði í góðri samvinnu við þá framhaldsskóla sem fyrir eru. Bæjarstjórn lýsir yfir áhuga á að Akureyrarbær taki þátt í uppbyggingu nýs framhaldsskóla og leggur til að Héraðsnefnd skipi vinnuhóp sem fái það hlutverk að gera tillögur um kostnaðarþátttöku sveitarfélaganna í verkefninu sem verða sendar sveitarstjórnum til umfjöllunar og afgreiðslu.