Forseti Íslands í heimsókn í Þelamerkurskóla

Á 200 ára afmælisdegi Jónasar Hallgrímssonar í dag, föstudaginn 16. nóvember, kom út á vegum menningarfélagsins Hrauns í Öxnadal ný ævisaga sem Böðvar Guðmundsson rithöfundur hefur skrifað og nefnir Jónas Hallgrímsson Ævimynd. Forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, heimsótti Þelamerkurskóla í Hörgárbyggð í morgun og afhenti elstu nemendum skólans fyrstu eintök bókarinnar. Við sama tækifæri minntust nemendur Þelamerkurskóla drengsins sem fæddist og ólst upp í sveitinni og varð skáld, listaskáldið góða. Í verkinu rekur Böðvar Guðmundsson ævi og störf skáldsins, náttúrufræðingsins og stjórnmálamannsins Jónasar Hallgrímssonar og bregður ljósi á þá þætti í lífi hans sem gerðu hann að skáldi. Inn í ævisöguna er fléttað kvæðum Jónasar og brotum úr bréfum hans og dagbókum sem tengjast sérstaklega þroskaferli hans sem manns og skálds.

Eftir hádegi í dag, opnar svo forseti Íslands minningarstofu um Jónas Hallgrímsson á fæðingarstað hans Hrauni í Öxnadal.  Ávarp flytur Guðrún María Kristinsdóttir, forstöðumaður Minjasafnsins á Akureyri, en safnið hefur haft umsjón með uppsetningu sýningarinnar fyrir hönd menningarfélagsins. Hönnun og uppsetning var í höndum Þórarins Blöndals myndlistarmanns og fyrirtækisins Maður og kona ehf.  Þórarinn Hjartarson sagnfræðingur tók saman handrit fyrir sýningargerðina.

Seinna í dag, eða kl. 17.15 verður haldinn Jónasarfyrirlestur á vegum Akureyrarbæjar og menningarfélagsins Hrauns í Öxnadal í Ketilhúsinu. Þar flytur Helga Kress prófessor erindi sem hún kallar: Ég bið að heilsa: Landið, skáldskapurinn og konan í ljóðum Jónasar Hallgrímssonar. Öllum er heimill aðgangur að fyrirlestrinum.

Nýjast