Við viljum minna foreldra á þeirra ábyrgð því borið hefur á hópamyndun og unglingadrykkju helgina eftir að samræmdu prófunum lýkur og er drykkjuumræðan í félagsmiðstöðvunum mun meira áberandi núna en í fyrra. Fyrir tveim árum söfnuðust margir unglingar saman í Kjarnaskógi, allt niður í 13 ára. Við slíkar aðstæður eru alltaf auknar líkur á því að einhverjir standist ekki hópþrýsting og hefji sína fyrstu áfengisneyslu. Enn fremur er það þekkt að unglingar undir áhrifum áfengis eru líklegri til að prófa önnur sterkari efni eins og hass, amfetamín og e-töflur. Með samstilltu átaki foreldra getum við komið í veg fyrir að slík hópamyndun endurtaki sig. Þá þurfa foreldrar að standa saman um að setja börnum sínum mörk, leyfa alls ekki eftirlitslaus partý í heimahúsum, skilja þau ekki eftir eftirlitslaus á stöðum eins og Kjarnaskógi og alls ekki kaupa áfengi fyrir þau. Þar með stöndum við vörð um hag unglinganna. Við þurfum að koma þeim skilaboðum áleiðis til þeirra að þau séu okkur mikilvæg og því skipti það okkur foreldrana miklu máli að vita hvar þau eru og hvað þau eru að gera. Næsta helgi er Hvítasunnuhelgin og því tilvalið að gera eitthvað skemmtilegt með allri fjölskyldunni.
Sameiginlegt foreldrarölt allra grunnskóla á Akureyri hefur verið skipulagt undanfarin ár, föstudaginn eftir samræmdu prófin. Á síðasta ári tókst vel til með röltið, fjöldi foreldra mætti og börn á grunnskólaaldri lítt sýnileg. Þannig viljum við að verði áfram. Sýnum ábyrgð, verðum virk og stöndum vörð um hagsmuni barna okkar."