21. janúar, 2008 - 14:18
Fréttir
Flugvélum fjölgaði til mikilla muna á Akureyrarflugvelli skömmu fyrir hádegi í dag, þegar 14 litlar vélar frá Flugskóla
Íslands komu inn til lendingar í fallegu veðri. Þarna voru á ferð nemendur skólans til atvinnuflugmanns, í árlegri heimsókn til
Akureyrar. Aldrei áður hafa þó fleiri vélar á vegum skólans tekið þátt í ferðinni norður en í fyrra komu 9
vélar. Alls eru nemendur til atvinnuflugmanns 32 og þar af 7 konur.
Eftir lendingu héldu flestir í mat á Greifann, einhverjir þurftu að snúa fljótlega til baka en hugðust jafnvel fljúga út í
Grímsey áður og þá sýndu margir því áhuga að skoða Flugsafn Íslands á Akureyrarflugvelli. Flugskóli
Íslands hf. var stofnaður sumarið 1998 en markmið skólans hefur frá upphafi verið að kenna, samkvæmt Evrópureglum JAA og síðar EASA,
flug frá grunni til atvinnuflugmannsréttinda ásamt því að sjá um endurmenntun flugmanna. Skólastjóri Flugskóla Íslands er
Baldvin Birgisson.