Fleiri segja auðvelt að fá vinnu við hæfi

Fleira fólk á Akureyri telur að það sé auðveldara að fá störf við hæfi núna en það var fyrir ári síðan. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri könnun sem Capacent Gallup hefur gert fyrir Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar og Vaxtarsamning Eyjafjarðar. Úrtakið í könnuninni var 1500 manns og svarhlutfall 60,2%. Greint er frá niðurstöðunum á heimasíðu AFE. Það vekur athygli að könnunin sýnir einnig að breyting hefur orðið á mati fólks á því hvort þjónusta og vöruúrval sé í lagi. Þannig eru nú færri sem segja að vöruúrval hér vera mikið en töldu vöruúrvalið mikið í fyrra.

Hér á eftir má sjá frétt AFE um þetta mál:

Könnun Capacent Gallup fyrir AFE

Í apríl 2007 vann Capacent Gallup könnun fyrir AFE og VAXEY meðal íbúa í Eyjafirði þar sem mældir voru ýmsir þættir varðandi lífsgæði, atvinnu og búsetu á svæðinu. Úrtakið var 1500 manns og svarhlutfall 60,2%.

Samskonar könnun var gerð fyrir ári síðan og er afar athyglisvert að bera saman niðurstöðurnar á milli ára sem gefa vísbendinu um þróun atvinnulífsins og viðhorf íbúa á svæðinu.

Helstu niðurstöður eru þær að íbúar svæðisins meta auðveldara nú en fyrir ári síðan að fá starf við hæfi 47,3% sögðu það mjög eða frekar auðvelt,en 42% töldu það mjög eða frekar erfitt. Í könnuninni fyrir ári síðan töldu 40,8% mjög eða frekar auðvelt að fá starf við hæfi. Marktækur munur var á svörum eftir aldri aðspurðra og virðist sem yngra fólk meti það auðveldara að fá vinnu við hæfi heldur en eldra fólk.

Þegar svarendur voru beðnir að meta þróun í atvinnumálum 1 ár aftur í tímann töldu 35% hana hafa verið góða sem er 10% fleiri núna en áður, en þá töldu 25,1% þróunina góða.

Spurt var um heildarlaun fyrir skatta og helsta breytingin á milli mælinga nú var sú að færri nefndu launatölur undir 300 þúsundum og fleiri sögðust hafa 300 þús í laun eða meira, hlutfallið fór úr 27,1% og upp í 35,5%. Að sama skapi segjast 54,4% vera ánægðir með eigin laun en í fyrra voru það 49,9%.

Sá þáttur sem fær lakari útkomu nú en í síðustu könnun er vöru og þjónustuúrval. Fyrir ári síðan sögðu 59,1% úrvalið vera mikið en 52,4% voru sömu skoðunar nú. Marktækur munur reyndist á kynjunum að þessu leyti og eru konur óánægðari með vöru og þjónustuúrval heldur en karlar auk þess sem yngra fólk var almennt óánægðara með vöru og þjónustuúrval heldur en þeir sem eldri eru.

Nýjast