Finnskur jazz í Laugarborg

Finnsku hjónin Matti og Kati Saarinen halda tónleika í Laugarborg í Eyjafjarðarsveit sunnudaginn 11. nóvember nk. kl. 15.00. Á fyrri hluta tónleikanna flytur Matti ýmis verk fyrir klassískan gítar en í síðari hluta syngur Kati dægurlög og blús við gítarundirleik Matti. Tónleikarnir eru liður í vetrardagskrá Laugarborgar. Matti og Kati Saarinen búa og starfa sem tónlistarkennarar á Austulandi.

 

Þau hafa leikið og sungið saman um árabil og hlotið ýmis verðlaun og viðurkenningar fyrir tónlist sína. Matti Saarinen lagði stund á klassískt gítarnám við Sibelius Akademíuna í Helsinki þar sem aðalkennarar hans voru Jukka Savijoki og Timo Korhonen. Seinna lærði hann einnig við Tónlistarháskólann í Malmö undir handleiðslu Görna Söllscher og Gunnar Spjuth og við Tónlistarháskólann í Vínarborg hjá Alvaro Pierri. Matti hefur komið fram sem einleikari og með ýmsum tónlistarhópum á öllum Norðurlöndum, Rússlandi, Austurríki og Þýskalandi. Hann hefur hlotið verðlaun í alþjóðlegum gítarkeppnum í Jyväskylä í Finnlandi og í London. Kati Saarinen útskrifaðist sem söngvari og alhliða tónlistarmaður frá Popp & djass Konservatoríinu í Helsinki árið 2004. Hún hefur sungið með ýmsum tónlistarhópum í Finnlandi og Austurríki og nú síðast á Íslandi. Hún hefur einnig stundað söngnám við ýmsar Jazz Vocal Workshops víðs vegar um Evrópu auk þess að leggja stund á Alexander tækni.

Nýjast