18. janúar, 2008 - 12:44
Fréttir
Fíkniefnabrot í umdæmi sýslumannsins á Akureyri á síðasta ári voru mun færri en bæði árin 2005 og 2006. Munar
þar mestu um að mun færri fíkniefnabrot voru um verslunarmannahelgina á síðasta ári heldur en hin árin. Hins vegar var lagt hald á mun
meira magn af kannabisefnum í fyrra en árið 2006 en minna af örvandi efnum en árið áður. Á síðasta ári komu upp 78
fíkniefnamál, 193 árið áður og 143 árið 2005.
Þetta kemur fram í bráðabirgðatölum lögreglunnar á Akureyri. Þar kemur einnig fram að um áramótin 2006/2007 færðist
lögreglustjórn sýslumannsembættanna á Ólafafirði og Siglufirði til Sýslumannsins á Akureyri. Til að samanburður sé
réttur milli ára eru brot á Ólafsfirði og Siglufirði inni í tölunum fyrir 2005 og 2006. Tölur fyrir 2007 eru heildartölur fyrir allt
embættið að Ólafsfirði og Siglufirði meðtöldum. Heildarfjöldi brota er heldur minni en 2006 en nokkuð meiri en 2005. Hegningarlagabrot eru
ívið færri en 2006 en talsvert meiri en 2005. Sérrefsilagabrotum hefur fækkað öll árin úr 512 árið 2005 í 387 í fyrra.
Umferðarlagabrot í fyrra eru svipuð og 2005 en nokkru lægri en 2006. Eitt banaslys varð í umferðinni á árinu er ökumaður lést eftir
að bifreið hans fór útaf í Hörgárdal.