Feykir gerir samninga við sveitarfélög í Skagafirði

Feykir, héraðsfréttablaðið á Norðurlandi vestra, hefur verið í mikilli uppsveiflu síðasta árið. Áskrifendum hefur fjölgar mikið og hefur blaðið nú tryggt sig í sessi. Er nú svo komið að blaðið auglýsir í fyrsta sinn eftir blaðamanni í fullt starf til að starfa með ritstjóranum. Þetta má að hluta til rekja til aðkomu sveitarfélaga á svæðinu að blaðinu, en Feykir hefur nú þegar gert almannatengslasamning við tvö af sex sveitarfélögum.

Samningar af þessu tagi hafa iðulega komið í umræðuna um héraðsfréttablöð en slík blöð njóta engra styrkja eða aðstoðar frá opinberum aðilum. Þá rata opinberar auglýsingar sem tengjast viðkomandi svæðum sjaldnast inn í þessi blöð og ríkisstofnanir hafa ekki sem reglu að kaupa þau í áskrift, þrátt fyrir að ítrekað hafi verið sýnt fram á mikilvægi þeirra fyrir staðbundin samfélög.

"Ég finn fyrir mikilli jákvæðni í garð blaðsins enda eru héraðsfréttablöðin nauðsynleg viðbót við fjölmiðlaflóru landsmanna. Það er erfitt í nútímasamfélagi að reka miðil sem kemur út einu sinni í viku og slíkur miðill vill því verða undir í samkeppninni um auglýsingar. Hins vegar eru sveitarfélögin á mínu svæði meðvituð um samfélagslegt gildi héraðsfréttablaðs og hafa því nú þegar tvö af sex gert almannatengslasamning við blaðið en hin hafa óskað eftir nánari viðræðum um fyrirkomulag," segir Guðný Jóhannesdóttir ritstjóri Feykis.

Guðný hefur stýrt blaðinu í ár en með tilkomu samnings við sveitarfélögin í samspili við fjórðungs aukningu á áskrifendum er nú í fyrsta sinn í 26 ára sögu Feykis hægt að auglýsa eftir blaðamanni til þess að starfa við hlið ritstjóra í fullu starfi. Upplýsingar um starfið veitir Guðný í síma: 898 2597

Nýjast