FFA býður upp á góða landkynningu og skemmtilegan félagsskap. Ferðir félagsins eru fjölbreyttar, svo sem jeppaferðir, lengri og styttri gönguferðir, sjóferðir, fjölskylduferðir, skemmtiferðir og náttúruskoðunarferðir. Auk þess býður félagið upp á mjög spennandi 7 daga sumarleyfisferð um Óðáðahraun með fullu fæði, trúss og gistingu i skálum félagsins á svæðinu. Í febrúar nk. ætla ferðafélagsmenn að standa fyrir fjórum skíðaferðum á mismunandi staði: Glerárdalur-Súlumýrar, Hrafnagil-Súlumýrar, Þorraferð í Botna þar sem gist verður eina nótt og að lokum verður Hrossadalur genginn suðureftir og yfir Þórisstaðaskarð að Veigastöðum. Síðan heldur þetta áfram með 4 - 7 ferðir mánaðarlega út starfsárið. Fyrsta ferð verður 2. febrúar og sú síðasta 22. september. Allir geta fundið ferð við sitt hæfi. Félagið á og rekur sjö skála í óbyggðum á Norðurlandi og eru tjaldstæði við þrjá þeirra. Í skálum félagsins er gott að gista en vinsamlega hafið samband við skrifstofu FFA til að bóka gistingu, einkum yfir hásumarið. Nánari upplýsingar um skálana er að finna á heimasíðu félagsins. FFA hefur gefið út göngukort af Glerárdal, Öskjuvegi um Ódáðahraun og nýtt kort af Vaðlaheiði. Kortin fást á skrifstofu félagsins að Strandgötu 23, Akureyri sem er opin í júní, júlí og ágúst kl. 16.00-19.00 alla virka daga. Á öðrum árstímum er skrifstofan opin kl. 17.30-19.00 á föstudögum þegar ferðir eru á dagskrá um komandi helgi. Hægt er að ná sambandi við stjórn félagsins í netfangi: ffa@ffa.is
Allir eru velkomnir í ferðir félagsins, hvort sem þeir eru félagar eða ekki, en félagsmenn fá afslátt af fargjöldum og af gistigjaldi í skálum allra félagsdeilda FÍ. Þessara réttinda nýtur fjölskyldan öll þótt aðeins einn sé skráður félagi. Útilíf, fjallaferðir, náttúrufegurð, frábær félagsskapur, það er okkar mál, segir í fréttatilkynningu félagsins.