Félög tengd Kjarnafæði kaupa fasteignir á Oddeyri

Fasteignarfélagið Eyrarbakki, félag í eigu Kjarnafæðis, hefur keypt fasteignir Strýtu á Oddeyri. „Það er margt til skoðunar," segir Gunnlaugur Eiðsson framkvæmdastjóri Kjarnafæðis, en nýverið keypti annað félag, Miðpunktur sem einnig tengist Kjarnafæði, fasteignir Norðlenska á sama svæði á Oddeyri. Gunnlaugur segir enn ekki útséð um hvað gert verði við umræddar fasteignir til framtíðar litið. Hann segir að í kjölfar niðursveiflu í rækjuiðnaði hafi þreifingar hafist milli manna um hugsanleg kaup á fasteign Strýtu, „ef til þess kæmi að svona færi, sem svo varð raunin," segir hann. Hugmyndina með kaupunum segir hann ekki endilega vera þá að flytja aðsetur Kjarnafæðis, sem nú er á Svalbarðseyri, til Akureyrar. „Það verður bara að koma í ljós hvað verður, annað hvort er þetta algert brjálæði, eða firna góð hugmynd."

Nýjast