Fagnar þeirri hreyfingu sem hefur verið á málefnum Norðurlands eystra

Stjórn Samfylkingarinnar á Akureyri fagnar, í ályktun, þeirri hreyfingu sem verið hefur á málefnum Norðurlands eystra síðasta misseri. Undir forystu núverandi ríkisstjórnar hafa atvinnu- og samgöngumál á svæðinu tekið kipp. Ákvörðun samgönguráðherra, Kristjáns L Möller, um Akureyrarflugvöll og Vaðlaheiðargöng heggur á margra ára gamlan hnút sem brýnt var að leysa. Jafnframt óskar Samfylkingin á Akureyri íbúum Fjallabyggðar til hamingu með þann áfanga sem nú hefur náðst í gerð Héðinsfjarðarganga. Málefni álvers við Bakka eru einnig í jákvæðum farvegi, segir einnig í ályktuninni og fyrir frumkvæði samgönguráðherra munu þessar framkvæmdir allar stuðla að framgangi atvinnumála á svæðinu er hér verður eitt atvinnusvæði vegna þeirra samgöngubóta sem fyrirhugaðar eru. Það mun styrkja svæðið gríðarlega sem mótvægi við Suðvesturhornið. Það er bjartsýni og framfarahugur í Norðlendingum eftir margra ára kyrrstöðu. Við höfnum kyrrstöðu og afturhaldi, segir í ályktun stjórnar Samfylkingarinnar á Akureyri.

Nýjast