Færri komast að en vilja á Listasumar á Akureyri

Mikill áhugi er fyrir Listasumri á Akureyri 2008 en frestur til að sækja um þátttöku er runninn út. „Okkur hafa borist 18 umsóknir um myndlistasýningar í Ketilhúsið og Deigluna, frá Íslandi, Norðurlöndunum og Skotlandi. Listamennirnir eru mun fleiri því nokkrar umsóknir eru fyrir samsýningu fjölda listamanna, mér telst að þeir séu nær 40," segir Valdís Viðars framkvæmdastjóri Listasumars.  "Umsóknir um tónleika á föstudagshádegistónleika eru 16 og koma þær frá Íslandi, Þýskalandi, Spáni, Tékklandi, Rússlandi og Norðurlöndunum. Búið er að fylla djassinn inn á alla heitu fimmtudagana." Valdís segir ljóst að ekki komist allir að sem vilja, myndlistasýningar í Ketilhúsinu, Deiglunni og jafnvel útisýningar verði til að mynda líklega um 10 talsins. Hún segir umsóknirnar í ár vera heldur færri en í fyrra en orsökin kunni að vera að umsóknarfresturinn hafi verið styttur til þess að hægt sé að skipuleggja Listasumarið með meiri fyrirvara. Fjöldi atburða á dagskrá verður aftur á móti svipaður enda umsóknirnar fleiri en hægt verður að sinna.

Listasumar verður nú sett í 16. sinn þann 19. júní nk., á Jónsmessu. Sem fyrr er byrjað á Jónsmessuhátíð og listsmiðjum fyrir börn. Hápunktur hátíðarinnar verður í Kjarnaskógi 23. júní en henni líkur formlega á Akureyrarvöku 30. ágúst. „Þarna verða bæði frægir listamenn og grasrótin. Rétt er að geta þess að Listasumar er fyrst og fremst vettvangur fyrir grasrótina, engin önnur listahátíð á Íslandi gerir grasrótinni eins hátt undir höfði og Listasumar á Akureyri. Þar fá ungir og upprennandi listamenn sem eru að stíga sín fyrstu skref tækifæri til að koma fram með sína list," sagði Valdís.

Nýjast