17. nóvember, 2007 - 13:20
Fréttir
Jón Gíslason fyrrverandi húsasmíðameistari hefur fært Iðnaðarsafninu á Akureyri að gjöf 30 útskurðarmyndir eftir sjálfan sig. Jón, sem er á tíðræðisaldri, tók ekki til við að skera út í íslenskt birki fyrr en um áttrætt en verk hans hafa vakið mikla athygli. Jón sagðist enn vera að skera út. "Þótt ég sé farinn að heyra illa, get ég enn unnið með höndunum." Hann er fæddur 1915 og lagði stund á húsasmíðar á Akureyri allan sinn starfsferil. Listáhuginn blundaði ávallt í Jóni og sótti hann námskeið fyrir margt löngu hjá Hauki Stefánssyni listmálara og Jónasi S. Jakobssyni sem m.a. gerði styttuna af Helga magra. Myndefni Jóns er margvíslegt, menn við vinnu, móðurást, tónlistarfólk og söknuður, svo eitthvað sé nefnt. Verkin eiga það sameiginlegt að vera gerð af miklum hagleik og ríkri tjáningarþörf.
Jón sagðist mjög ánægður með að verk sín væru komin á Iðnaðarsafnið. "Þetta er alveg stórmerkilegt safn og ekki við öðru að búast frá hugsjónamanni eins Jóni Arnþórssyni, sem er einstakur maður." Jón hefur búið í Fjólugötu í um 60 ár, hann býr þar enn og vill hvergi annars staðar vera. Haraldur Ingi Haraldsson hefur tekið við starfi forstöðumanns Iðnaðarsafnsins og hann var að vonum ánægður með gjöfina. Hann sagði að safninu væri mikill fengur að þessum verkum, úr hendi manns sem starfsævi sína hafði atvinnu af húsasmíðaiðnaði. Haraldur Ingi sagði verk Jóns segja svo mikið og að þau kæmu með skemmtilega vídd inn í safnið.